Kveikjur-Áratugir

0
145

Ég hef fengist við það í hjáverkum að setja saman stuttar smásögur, nútímahugleiðingar í dæmisagnaformi, er ég nefni einu orði “Kveikjur.” Nú liggur fyrir að kveikjur þessar, sem verða 40 talsins með ljósmyndum og ritningarversum, munu líta dagsins ljós í riti á þessu ári. Eftirfarandi tilvitnun í formála gefur einhverja mynd af tilgangi þeirra og markmiði:

Bolli Pétur Bollason
Bolli Pétur Bollason

 

Sögurnar mega vel nýtast sem ísbrjótar fyrir samtal og sameiginlegar vangaveltur, þankar geta vel kviknað um það þegar þú varst í samskonar eða svipuðum aðstæðum eða þá að þú hafir þekkt manneskju, sem lenti í þessu eða hinu.

 

Ef sögurnar ýta með þeim hætti við þér, þá er svo hollt að að skoða hvernig þú mættir aðstæðunum og vannst úr þeim eða þá að þú ímyndir þér hvernig þú myndir mæta þeim ef til þeirra kæmi. Allar sögurnar eiga sér raunsannan bakgrunn og margar þeirra endurspegla reynsluheim höfundar og eru hluti af honum og því starfi sem hann hefur sinnt síðustu 13 árin. Sögurnar eru alvarlegar, engar skrýtlur, þær fjalla líka að stærstum hluta um margvísleg mein í samfélagi okkar. Þarna er tæpt á þjóðfélagmálum á borð við fátækt, ofbeldi í ýmsum myndum, einsemd, siðferðisbrestum, siðferðislegum álitamálum, tilvistar-og tilgangsspurningum, sorginni, gleðinni, kærleikanum, samskiptum fólks og á milli kynslóða,tímanum og endalokunum.

Við upphaf nýs árs langar mig að láta hér eina sögu fylgja, er segir frá hugmynd sem fær mann jafnvel til að staldra aðeins við og hugsa um það hvað lífið hefur fært þér í fang og hvernig þú vilt sjá það, þá innan ákveðins tímaramma. Hvar varst þú fyrir áratug síðan, hvernig spurningar vilt þú leggja fyrir þig núna, sem þér þætti spennandi að svara eftir tíu ár?

Áratugir

“Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn. 3:1)

Það var forvitnilegt að hitta þessa kanadísku félaga bak við kirkjuna við gamla reynitréð 3. maí 2012. Þeir höfðu gert með sér sáttmála nákvæmlega tíu árum fyrr og létu meira að segja húðflúra hann á handlegginn. Þennan tiltekna dag skyldu þeir hittast og það varð úr að hittast á Íslandi við aldna Laufáskirkju við Eyjafjörð, þar sem eitt elsta reynitré landsins stendur.

En hvernig kom það til að þeir ákváðu að hittast þar? Jú, þeir höfðu dregið fram alheimskort og kastað pílu á það blindandi. Það var eins og við manninn mælt, pílan stakkst beint á Laufás við Eyjafjörð. Ég hef alltaf sagt það, það virðist sem staðurinn sé miðpunktur alheims. Þessir frjóu skólabræður frá Vesturheimi voru að gera um hugmynd sína heimildarmynd og þess vegna höfðu þeir tökulið með í för. Verkefnið bar yfirskriftina “Áratugir” (Decades). Samkvæmt sáttmálanum áttu þeir ætíð að hittast á áratugafresti einhversstaðar í veröldinni og staðsetningar átti að velja áfram með blindandi pílukasti. Það sem fólki dettur í hug.En ekki var þetta allt bara svona út í loftið, það var viss hugsun á bak við. Þeir vildu fylgjast með og taka upp lífið og þær breytingar, sem yrðu á högum þeirra eftir sérhvern áratug. Hvað hafði drifið á daga þeirra? Hvernig höfðu viðhorf þeirra breyst og hvaða hugmyndir höfðu þeir um líf sitt næstu tíu ár á eftir?

Þeir lögðu fyrir mig spurningar, sem þeir höfðu samið fyrir daginn stóra og þeir voru sannarlega heppnir með þennan dag, því hann var fagur og vorið og sveitin skörtuðu sínu fegursta. Þarna stóð ég frammi fyrir því að þurfa að rifja upp hvað ég var að gera fyrir áratug síðan. Það þótti mér auðvelt því ég mundi það að ég hafði gift mig það ár, eignast barn og þegið prestsvígslu. Það var viðburðarríkt ár 2002 og það gladdi mig að fá að rifja það upp. Og hvað mér þótti stutt síðan og tíminn fljótur að líða.

Hlutirnir tóku hins vegar að flækjast nokkuð þegar þeir spurðu um hugmyndir mínar um framtíðina og hvernig ég sæi mig eftir tíu ár. Þá stóðu orðin í mér enda fremur eðlilegt, því hvað vitum við um framtíð okkar. En til að segja eitthvað vonaðist ég til þess að vera þá orðinn tíu árum eldri með aðeins meiri reynslu af lífinu hafandi lært eitt og annað, sem skipti máli. Lítið meira var hægt að segja, en þetta er samt sem áður öllum hollt að velta tilverunni með þessum hætti fyrir sér, fara yfir áratugina. Við vorum sammála um að það hefði áhrif á þakklætið og auðmýktina frammi fyrir lífsleið okkar.

Það var á ákveðin hátt táknrænt að þetta skyldi allt fara fram við 150 ára gamalt reynitréð, sem hafði staðið að stofninum til í ófáa áratugi, hafði vaxið upp aftur eftir að hafa verið höggvið niður einhver skipti, aldrei gefist upp, og verið öruggt skýli tryggum þrastarhjónum og staðarprýði í friðsömum kirkjugarði. Eftir spjallið héldu vinirnir sáttmálanum áfram og pílunni var kastað að nýju á kort, sem myndi leiða þá á vit nýrra ævintýra í Asíuálfu. Þar í fjarlægu landi, sem ég átti meira segja erfitt með að meðtaka og bera fram, skyldu þeir að hittast að öllu óbreyttu þann 3. maí árið 2022 og nýtt húðflúr var væntanlegt á handlegginn. Það verður fróðlegt að sjá afraksturinn og sömuleiðis að heyra hvernig líf þeirra félaga blasir við að tíu árum liðnum. Hefur þú velt því fyrir þér hvernig líf þitt verður þá og hvort þú getir núna haft einhver áhrif á það?

Við fjölskyldan uppgötvuðum síðan nokkrum mánuðum eftir heimsókn þessara ævintýramanna að þeir voru heiminum ekki alveg ókunnugir, því dóttir mín sem hafði fylgst með samfélaginu þarna í garðinum hrópaði upp yfir sig er hún sá andlitið á öðrum þeirra bregða fyrir í vinsælum framhaldsþætti í sjónvarpi: Þarna er karlinn í kirkjugarðinum“!

Veröldin snarminnkaði á þeirri sömu stundu.

Bolli Pétur Bollason