Kúluhús rís í Þingeyjarsveit

0
2191

Gestur Helgason gjarnan kenndur við Fosshól, fékk lóð úr landi Rauðár til að byggja sér íbúðarhús. Gestur var mikill hugsuður, hann hafði ætlað sér að verða sjálfbær með rafmagn og hita. Hann ætlaði að virkja lítinn læk sem rennur í tjörn þarna rétt hjá og átti viðarkyndingu. Gestur pantaði kúluhús um mitt sumar 2017, það átti að koma ósamsett frá Bandaríkjunum í pakkanum var burðarvirki, krossviður, þakpappi og þakpappaskífur.

Þá var farið að gera grunn og steypa kjallara undir kúluna, við þá vinnu hafði Gestur með sér þá Halldór Hrafn Gunnarsson (Hadda) á Rauðá og Kristján Skarphéðinsson (Kidda) frá Úlfsbæ. Samvinna þeirra var afar ánægjuleg, enda Gestur húmoristi mikill, hafði skemmtilega sýn á svo margt, hafði þægilega nærveru og öllum sem honum kynntust, þó lítillega væri, þótti vænt um Gest. Þeir Haddi og Kiddi brosa báðir þegar þeir hugsa til Gests og segja “þetta var bara svo skemmtilegt og óvenjulegt verkefni”. Gestur varð bráðkvaddur um páskana 2018 þá aðeins 57 ára að aldri. Þá var húsið tilbúið í Bandaríkjunum, að fullu greitt en það átti eftir að semja um fluttning. Fjölskylda Gests ákvað að fá húsið heim. Sumarið 2018 ákvað Haddi að kaupa húsið ásamt Aðalbjörgu systur sinni.

Haddi.
þarna sjást litamerkingar

Núna er burðarvirkið komið upp, það gerðist á einum degi, að vinnunni komu 10 karlar, vinir og nágrannar í sjálfboðavinnu, einhver sagði að þarna hefðu verið saman komnir helstu snillingar sveitarinnar. Enginn tommustokkur né hallamál er notað við samsettninguna. Allt er litamerkt, tilsniðið og mjög auðvelt í samsettningu. Húsið er að hluta til tvær hæðir og svo er kjallari undir öllu.

 

 

Kiddi

Kúluhúsið stendur ögn sunnan við Fosshól, þaðan er frábært útsýni í allar áttir. Tjörnin er rétt sunnan við húsið, þar hefur sést til Himbrima, álfta og fleiri fuglar. Flestir eru mjög spenntir að fylgjast með framgangi mála og hafa gaman af að fylgjast með framkvæmdum. Haddi stefnir að því að klára húsið að utan í sumar og hefja svo innivinnuna í haust.

tjörnin.

 

skemmtilegt munstur