Þingfulltrúar á tvöföldu kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins sem stendur yfir í Skjólbrekku í Mývatnssveit völdu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra til þess að leiða áfram lista sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi. Njáll Trausti Friðbertsson flugumferðarstjóri varð í öðru sæti og Valgerður Gunnarsdóttir þingmaður í því þriðja.

Aðeins munaði sjö atkvæðum á Njáli og Valgerði í kosningunni um annað sætið, en bæði sóttust eftir því. Valgerður var kosinn með öruggum hætti í þriðja sæti listans.
Arnbjörg Sveinsdóttir, fyrrverandi þingmaður skipar fjórða sætið, Elvar Jónsson, laganemi og varaformaður SUS, skipar fimmta sætið og Melkorka Ýrr Yrsudóttir nemi það sjötta.
Önnur sæti á lista flokksins verða í höndum kjörnefndar, en alls voru tíu manns í framboði.