Krambúðin opnar á Húsavík

0
485

Samkaup hf opnar nýja verlsun að Garðarsbraut 5 á Húsavík næstkomandi föstudag, 29. Apríl klukkan 12.00. Verslunin verður rekin á sömu forsendum og Krambúðin á Skólavörðustíg í Reykjavík sem tók miklum breytingum í lok árs 2015. Voru þær breytingar gerðar til þess að mæta aukinni eftirspurn frá nærumhverfinu en einnig til þess að þjónusta aukinn fjölda ferðamanna sem leggur leið síðna um Skólavörðustíginn.

Krambúðin. Mynd: Hörður Jónasson
Krambúðin. Mynd: Hörður Jónasson

 

Hönnun Krambúðarinnar miðast að því að vísa til íslenskrar náttúru þar sem birki, grjót, hraun og sina ræður ríkjum. Andrúmsloftið er létt með einföldu og stílhreinu litavali og upplifunin tekur mið af því. Vöruval er mjög fjölbreytt sem og opnunartími verslunarinnar. Hið sama á við um nýju verslunina á Húsavík en opnunartími hennar verður langur, eða frá kl.08.00 – kl.22.00 alla daga vikunnar.

 

Lagt er upp með að viðskiptavinir geti orðið sér út um þær vörur sem þarf til heimilisins hverju sinni. Fyrir fólk á ferðinni eða þá sem vantar skyndilausnir verður boðið uppá bakað á staðnum, tilbúna rétti, samlokur, tilbúin salöt, kaffi o.s.fr.

Krambúðin. Mynd: Hörður Jónasson
Krambúðin. Mynd: Hörður Jónasson

 

Mikil ánægja hefur verið meðal viðskiptavina bæði íbúa í nærsamfélaginu sem og annara á breyttum áherslum og útliti Krambúðarinnar og gaman verður að sjá viðtökur íbúa og gesta Húsavíkur á opnun Krambúðarinnar þar.
Í tilefni dagsins munu forsvarsmenn Samkaupa endurnýja styrktarsamning við Völsung og þannig áframhaldandi styðja við bakið á því góða íþrótta- og æskulýðsstarfi sem þar er rekið.