Kótelettufélagið heiðrar sýslumann og yfirlögregluþjón fyrir vasklega framgöngu

0
198

Í gærkvöld var haldin fyrsti Kótelettufundurinn (matarfundur) á þessum vetri. Á fundinn voru boðnir þrír heiðursmenn, Svavar Pálsson sýslumaður á Húsavík, Sigurður Brynjúlfsson yfirlögregluþjónn á Húsavík og Þórarinn Ingi Pétursson Grýtubakka, formaður Landssambands Sauðfjárbænda. Kótelettufélagið veitti þeim Svavari og Sigurði viðurkenningu fyrir vasklega framgöngu við skipulagningu og björgun búfjár í óveðrinu sem geisaði í september 2012. Auk þess fengu þeir allir staðfestingarskjal um að þeir hefðu snætt kótelettur með félögum í Kótelettufélagi Íslands.

Svavar Pálsson sýslumaður Þingeyinga tekur við viðurkenningunni frá Kótelettufélaginu.
Svavar Pálsson sýslumaður Þingeyinga tekur við viðurkenningunni frá Kótelettufélaginu.

Að venju voru bornar fram kótelettur, ís og ávextir í eftirrétt.  Á þessum fundi var margt spjallað og spáð í ýmislegt varðandi lambakjöt, sauðfjárræktun og markaðsmál,
Þessi fundur var mjög skemmtilegur og nutu menn þess að spjalla og borða góðan mat.

Kótelettufélagið fer eftir ströngum gæðastöðlum þegar kemur að vali á hráefni, því aðeins kótelettur af kjötskrokkum sem hafa flokkast í E3 eða  hærra, uppfylla skilyrði félagsins. Öll meðhöndlun á kótelettunum, eldun og meðlæti skiptir miklu máli, enda á eldunin að vera eins og amma gerði það. Kótilettunum er velt um úr raspi og smjörið er ekki sparað við steikinguna.  Fyrirtækið Maxí efh. gaf Kótelettufélaginu 20 kílóa sekk af gullraspi nú nýlega og er kótelettunum að sjálfsögðu velt upp úr honum. Þær eru síðan bornar fram með kartöflum, rauðkáli, grænum baunum og rabbabarasultu.

Mjög ströng inntökuskilyrði eru í Kótelettufélag Íslands og ekki fær hver sem er inngöngu. Nýr félagsmaður þarf samþykki  tveggja aðalfunda og þarf að ganga í gegnum aðlögun að siðum og venjum félagsins á aðlögunartímabilinu. Félagið hefur haldið kótelettukvöld fyrir hin ýmsu félög og hópa frá stofnun þess árið 2010. Kótelettukvöldin hafa verið haldin í Heiðarbæ í Reykjahverfi, en einnig hafa félagsmenn farið og eldað kótelettur á veitingastöðum í sýslunni sem og í heimahúsum, þar sem áhugasamir hafa getað snætt kótelettur að hætti félagsins. Félagið hefur enn ekki eldað utan Þingeyjarsýslu en félagsmenn hafa kynnt starfsemi utan sýslunnar í nokkur skipti.

Að sögn Birgirs Þórs Þórðarsonar talsmanns félagsins hefur útrás Kótelettufélagsins verið rædd en í haust fóru tveir félagar ásamt erindreka félagsins Sveinbjörns Sigurðssonar bónda á Búvöllum í Aðaldal, til Tirol í Austurríki með spúsur sínar og skoðuðu þeir landbúnað og landkosti þar suður frá. Var þetta hin besta ferð og var þar smakkaður matur og drykkur Austurríkismanna. Einnig  fór einn félagi til að kynna sér landbúnað á Spáni en það endaði nú ekkert sérlega vel því matur þeirra fór ekki vel í karlinn. Að sögn Birgis hafa nokkur önnur kótelettufélög sprottið upp hér innanlands og vissi hann um eitt á Patreksfirði, annað á Höfn í Hornafirði og amk. um eitt félag í Reykjavík.

Birgir vildi koma því á framfæri að ef einhver félög eða hópar vilji fá kótelettur eldaðar á hætti félagsins væri bara að hafa samband.

Svavar, Sigurður og Þórarinn með viðurkenningarnar frá Kótelettufélaginu.
Svavar, Sigurður og Þórarinn með viðurkenningarnar frá Kótelettufélaginu.

 

Sjá meia á Facebooksíðu félagsins