Kosningar til sveitarstjórnar framundan

0
95

Þegar ég flutti með fjölskyldu mína fyrir rúmum áratug í Suður-Þingeyjarsýslu gerðist ég íbúi í Reykdælahrepp. Stuttu síðar tók ég þátt í kosningu um sameiningu sveitarfélaga í sýslunni. Ég fylgdist með þeirri umræðu sem þá átti sér stað og reyndi að mynda mér skoðun á því hvað væri farsælast fyrir mig og aðra íbúa á þessu svæði. Niðurstaðan þá varð sameining nokkurra lítilla hreppa í Þingeyjarsveit sem átti þó aftur eftir að stækka meira síðar.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

Á sínum tíma flutti ég hingað til að setjast að til langs tíma og því fannst mér þá, og mér finnst það enn, skipta máli að teknar séu farsælar ákvarðanir sem styrkja búsetuskilyrðin hér. Sem íbúi hef ég með nokkrum áhuga því reynt að fylgjast með málefnum sveitarfélags míns, stöðu þess og stefnu. Þegar tækifæri hafa gefist hef ég reynt að hlusta á raddirnar í samfélaginu með opnum huga í von um að mér takist að skilja ólíkar skoðanir fólks og sjónarmið.

Ekki hef ég nú alveg staðist þá freistingu að blanda mér og mínum skoðunum inn í umræðuna ef færi gáfust á.

Í vor munu íbúar Þingeyjarsveitar kjósa sér fulltrúa til að taka sæti í sveitarstjórn. Ég er þeirrar skoðunar að það sé viðamikið, vandasamt og vanþakklátt hlutverk að sitja í sveitarstjórn. Það sé skylda þeirra sem hljóta kosningu að gera það af sinni bestu getu og vera reiðubúnir til þess að færa persónulegar fórnir fyrir samfélagið sitt. Á sama tíma er mér ljóst að þeirri miklu ábyrgð sem sveitarstjórnarstörfin innihalda fylgja, ef ekki völd, þá allavega valdatilfinning. Víða í kringum okkur sjáum við dæmi þess hvernig einstaklingar í ábyrgðarstöðum misnota stöðu sína eða gera allt til þess að halda henni af ótta við það tómarúm sem þeir hyggja að taki við ef tilfinningin fyrir því að vera við völd er ekki lengur til staðar. M.a. af þessum sökum er lýðræði besta leiðin. Fólkið fær reglulega tækifæri til þess að velja sér nýtt fólk í þessi ábyrgðarhlutverk. Þeir sem hafa staðið sig vel og skilað sínu eru leystir undan skyldunum, aðrir taka við, og ef einhverjir sem áttu að þjóna fólkinu eru farnir að hegða sér eins og þeir eigi að drottna yfir því getur fólkið kosið aðra sem vonandi standa sig betur gegn freistingunum sem ábyrgðinni fylgja.

Nú gæti einhver misskilið þessar almennu pælingar mínar hér á undan (eða bara alls ekkert skilið þær, málsgreinarnar mínar verða oft svo skelfilega langar) og haldið að þeim sé á einhvern hátt beint gegn því góða fólki sem setið hefur í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar síðustu ár. Það er ekki svo, þetta er nú meira svona almennt bara (eða alþingis bara). Ljóst er að einhverjir af núverandi sveitarstjórnarmönnum ætla ekki að gefa kost á sér áfram og vil ég þakka þeim fyrir þeirra störf. Aðrir geta hugsað sér að gefa meira af sér og fagna ég því. Full þörf verður fyrir krafta þessa góða fólks áfram. Eftir standa spurningar til mín (og kannski spyrja sig fleiri) sem brunnið hafa á mér og fengið mig til þess að setja undangengnar vangaveltur mínar á blað:

* Er ég reiðubúin(n) til þess að bjóða fram krafta mína fyrir sveitarfélagið og setjast í sveitarstjórn næstu 4 árin?

* Er ég hentugur aðili sem hefur eitthvað fram að færa sem nýst getur og samfélagið hefur hag af?

* Hvernig get ég, hafi ég áhuga, boðið fram krafta mína?

* Fyrir hvað stend ég og hver er framtíðarsýn mín fyrir sveitarfélagið (fólk vill örugglega vita það um frambjóðendur)?

Ef ég sannfærist um (eða einhver annar sannfærir mig) að í mínu tilfelli sé svarið já við fyrstu tveimur spurningunum mun ég setja frekari pælingar á blað og reyna að dreifa um sveitina. Þá aðra sem eru reiðubúnir hvet ég til að fara af stað. Samfélag okkar þarfnast virkar þátttöku áhugasamra og hæfra einstaklinga til áframhaldandi uppbyggingar og vaxtar.

Með kærri kveðju, Aðalsteinn Már Þorsteinsson Hjalla í Reykjadal.