Konur í meirihluta í nýrri stjórn Landsnets

0
74

Sigrún Björk Jakobsdóttir, hótelstjóri á Icelandair hótelinu á Akureyri, er nýr formaður stjórnar Landsnets. Hún tekur við af Geir A. Gunnlaugssyni, fyrrverandi forstjóra Marels og Sæplasts/Promens. Hann lætur af störfum að eigin ósk eftir að hafa gegnt formennsku í stjórn Landsnets sl. fimm ár. Frá þessu segir á vef Landsnets

Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir

Á aðalfundi Landsnets í gær var gengið frá kjöri Sigrúnar í stjórn fyrirtækisins. Jafnframt voru Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika, og Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri Farice, endurkjörin í stjórn og Svava Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Strategíu, var endurkjörin varamaður í stjórn.

Með reynslu úr ferðaþjónustu og sveitarstjórnarmálum
Sigrún Björk er fyrrverandi bæjarstjóri og bæjarfulltrúi á Akureyri, var formaður Eyþings, samtaka sveitarfélaga á Norðausturlandi og sat í stjórn Sambands íslenska sveitarfélaga. Undanfarin ár hefur ferðaþjónusta verið hennar starfsvettvangur og sat hún í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar á liðnu ári.

Eigendur Landsnets eru Landsvirkjun, RARIK, Orkuveita Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða og ber stjórnarmönnum að vera sjálfstæðir og óháðir eigendum, sem og öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu og sölu raforku, til að fullnægja lögbundnum kröfum um hlutleysi og jafnræði.

400 milljóna króna arðgreiðsla samþykkt
Ársreikningur Landsnets fyrir árið 2015 var jafnframt samþykktur á aðalfundi Landsnets í gær, sem og 400 milljóna króna arðgreiðsla til eigenda fyrirtækisins, eða sem nemur 10% af hagnaði síðasta árs. Þetta er í fyrsta sinn sem Landsnet greiðir eigendum sínum arð á þeim rúma áratug sem fyrirtækið hefur starfað. Landsnet.is