Konudagskaffi og skemmtun hjá Sálubót

0
208

Söngfélagið Sálubót hélt söngskemmtun með kaffihlaðborði sunnudaginn 24.febrúar í íþróttasal Stórutjarnaskóla. Skemmtunin hófst með því að kórinn söng nokkur vel valin lög, úr ýmsum áttum, Jónas Reynir Helgason söng einsöng í einu laganna. Frímann Sveinsson einn kórfélaga spilaði á gítar og stjórnaði fjöldasöng á meðan aðrir kórfélagar báru fram veisluföng á hlaðborðið. Á meðan gestir gengu að hlaðborði sem var geysilega fjölbreytt og glæsilegt spiluðu Jaan Alavere og Pétur Ingólfsson  „dinner“ tónlist.

Kórinn eins og hann var skipaður í dag.
Kórinn eins og hann var skipaður í dag.

 

 

 

 

 

 

Í tilefni konudagsins lásu Halldór Valdimarsson og Ólafur Arngrímsson úr bókinni Djúpar rætur, hugverk þingeyskra kvenna, Halldór las frásögn Aðalbjargar Pálsdóttur sem fædd er í Femstafelli í Kinn en er búsett í Vallakoti í Reykjadal og Ólafur las frásögn Guðrúnar Sveinbjörnsdóttur sem er fædd og uppalin í Ófeigsfirði á Ströndum, en býr á Mýri í Bárðardal.

Jaan og Marika Alavere skemmtu gestum með því að spila nokkur írsk lög og fóru alveg á kostum,  síðan bættist Pétur í liðið og spiluðu þau saman, lög um konur.

Marika Alavere fiðla, Jaan Alavere píanó og Pétur Ingólfsson bassi.
Marika Alavere fiðla, Jaan Alavere píanó og Pétur Ingólfsson bassi.

 

 

 

 

 

 

 

 

Lokalagið var sungið af  Sálubót, það var Eistneskt lag Muusikale, sungið á Eistnesku, í tilefni af því að 24. febrúar 1918 hlutu Eistlendingar sjálfstæði í fyrra sinn.

Þetta var með sanni bæði andlegt og líkamlegt fóður og hvergi til sparað í veitingunum, á hlaðborðinu var allt sem hugsast getur á einu veisluborði: kex, ostar og salöt, pönnukökur, soðið brauð, flatbrauð, ástarpungar, formkökur, smurtertur, stórar krem og marenstertur og er þá ekki allt talið.

Eins og sjá má var hlaðborðið stór-glæsilegt.
Eins og sjá má var hlaðborðið stór-glæsilegt.

 

 

 

 

 

 

 

Andlega fóðrið fór einnig vel í gesti, músikin var yfirleitt lét og skemmtileg, kórinn virtist  skemmta sér vel og það skilar sér út í salinn, sem var þéttsetinn og þurfti að bæta við mörgum borðum og stólum svo allir gætu setið.

Myndirnar á Ana M.Korbar.