Söngfélagið Sálubót hélt söngskemmtun með kaffihlaðborði sunnudaginn 24.febrúar í íþróttasal Stórutjarnaskóla. Skemmtunin hófst með því að kórinn söng nokkur vel valin lög, úr ýmsum áttum, Jónas Reynir Helgason söng einsöng í einu laganna. Frímann Sveinsson einn kórfélaga spilaði á gítar og stjórnaði fjöldasöng á meðan aðrir kórfélagar báru fram veisluföng á hlaðborðið. Á meðan gestir gengu að hlaðborði sem var geysilega fjölbreytt og glæsilegt spiluðu Jaan Alavere og Pétur Ingólfsson „dinner“ tónlist.

Í tilefni konudagsins lásu Halldór Valdimarsson og Ólafur Arngrímsson úr bókinni Djúpar rætur, hugverk þingeyskra kvenna, Halldór las frásögn Aðalbjargar Pálsdóttur sem fædd er í Femstafelli í Kinn en er búsett í Vallakoti í Reykjadal og Ólafur las frásögn Guðrúnar Sveinbjörnsdóttur sem er fædd og uppalin í Ófeigsfirði á Ströndum, en býr á Mýri í Bárðardal.
Jaan og Marika Alavere skemmtu gestum með því að spila nokkur írsk lög og fóru alveg á kostum, síðan bættist Pétur í liðið og spiluðu þau saman, lög um konur.

Lokalagið var sungið af Sálubót, það var Eistneskt lag Muusikale, sungið á Eistnesku, í tilefni af því að 24. febrúar 1918 hlutu Eistlendingar sjálfstæði í fyrra sinn.
Þetta var með sanni bæði andlegt og líkamlegt fóður og hvergi til sparað í veitingunum, á hlaðborðinu var allt sem hugsast getur á einu veisluborði: kex, ostar og salöt, pönnukökur, soðið brauð, flatbrauð, ástarpungar, formkökur, smurtertur, stórar krem og marenstertur og er þá ekki allt talið.

Andlega fóðrið fór einnig vel í gesti, músikin var yfirleitt lét og skemmtileg, kórinn virtist skemmta sér vel og það skilar sér út í salinn, sem var þéttsetinn og þurfti að bæta við mörgum borðum og stólum svo allir gætu setið.
Myndirnar á Ana M.Korbar.