Könnunarsögusafnið opnar á laugardag – Ert þú geimfari?

0
246

Könnunarsögusafnið (The Exploration Museum) á Húsavík sem er safn um sögu land og geimkönnunar opnar nk. laugardag 24 maí kl 11:00. Aðal sýningarrými safnsins er helgað geimferðum, æfingum amerískra tunglfara á Íslandi árin 1965 og 1967, sem og tilraunageimskotum frakka sem áttu sér stað hér á landi frá 1964 til 1965. Þá er ýtarlega fjallað um landkönnun víkinga og norrænna manna.

Könnunarsögusafnið á Húsavík
Könnunarsögusafnið á Húsavík

Undirbúningur að stofnun safnsins hefur staðið frá árinu 2010 og er safnið er til húsa að Héðinsbraut 3 þar sem áður var Hið íslenzka reðasafn. Örlygur Hnefill Örlygsson sem er safnstjóri Könnunarsafnsins, segir að markmið safnsins sé að vekja athygli á tengslum Íslands við könnunarsögu heimsins.

 

 

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun verða viðstaddur opnunina nk. laugardag, ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra og Össuri Skarphéðinssyni fyrv. ráðherra. Athöfnin mun hefjast á því að Arngrímur Jóhannsson flugmaður mun lenda á sjóflugvél sinni við Húsavíkurhöfn með nýtt málverk af landsnámsmanninum Náttafara, sem er talin vera fyrsti maðurinn sem hafði fasta búsetu á Íslandi. Kristinn G Jóhannsson málaði myndina af Náttfara.

Auglýst eftir geimfara !

Könnunarsögusafnið auglýsir eftir geimfara. Ert þú að leita að sumarstarfi? Okkur vantar einhvern til að vera í geimfarabúningnum okkar í sumar og fara um Húsavík til að kynna The Exploration Museum þar sem meðal annars er fjallað um æfingar geimfara hér á Íslandi. Sjá myndbandið hér fyrir neðan:

Til að sækja um þarf að senda póst á netfangið info@explorationmuseum.com og tilgreina nafn, kennitölu og símanúmer. Ekki er verra að láta mynd fylgja með. Umsóknarfrestur er til 5. júní 2014.

Geimfari.com

Könnunarsögusafnið