Komu áhyggjum sínum á framfæri við sveitarstjórn

0
85

Nokkrir íbúar í Þingeyjarsveit komu óánægju sinni á framfæri með að búið sé að leggja af grunnskólahald á Laugum við sveitarstjórn þingeyjarsveitar, áður en 173. fundur sveitarstjórnar var haldinn sl. fimmtudag í Kjarna. Íbúarnir fengu hálftíma til þess að koma sjónarmiðum sínum að og óskuðu eftir því að sveitarstjórn kæmu með rök fyrir því hvers vegna tekin var sú ákvörðun að leggja Litlulaugaskóla í Reykjadal niður.

Litlulaugaskóli
Litlulaugaskóli

Íbúarnir lýstu þungum áhyggjum sínum og vonbrigðum með þessa ákvörðun og töldu hana ekki til þess fallna að treysta búsetu á Laugum eða í Reykjadal og að ungt fólk með börn á grunnskólaaldri myndi síður eða jafnvel alls ekki, flytja í Reykjadal eftir þessa ákvörðun. Nokkrar fjölskyldur með börn á grunnskólaaldri hafa flutt í Reykjadal á allra síðustu árum og þessi ákvörðun kemur eins og köld vatnsgusa framan í það fólk, að sögn íbúanna.

Íbúarnir töldu það vera skyldu sína að andmæla þessum breytingum. Grunnskólinn styrkti allt samfélagið, Framhaldsskólann á Laugum og öfugt með því að byggð efldist í öllu sveitarfélaginu. Íbúarnir töldu að skólarnir ættu að vera þrír og með þrjá skólastjóra því skólarnir væru allir álíka stórir.

Íbúarnir töldu að betra hefði verið að láta næstu ár skera úr um hvernig mál hefðu þróast í sveitarfélaginu áður en þessi ákvörðun var tekin.

Íbúarnir óskuðu eftir því að þetta yrði skoðað alvarlega og reynt yrði að fara samningaleiðina við íbúanna og umhverfið. Það væri margt sem ekki væri hægt að meta til peninga. Sáttin væri mikils virði.

Að sögn eins íbúans sem fékk áheyrn hjá sveitarstjórn var fátt um svör, en oddviti Þingeyjarsveitar lofaði að svara þeim í bréfi fljótlega og koma með rök fyrir því hvers vegna þessi ákvöðrun var tekin.

Það svarbréf hefur ekki borist.