Köld kveðja bæjarstjórnar til Reykhverfinga

0
73

Á íbúafundi í Heiðarbæ sem haldinn var í síðustu viku tilkynnti bæjarstjórn Húsavíkur að skólabílnum í Reykjahverfi yrði ekið í Borgarhólsskóla næsta haust og þar með ættu öll börn í sveitinni sem byrja skólagöngu framvegis að sækja þann skóla. Ákvörðun þessi kemur í framhaldi af sölu Hafralækjarskóla, en eins og nú er orðið kunnugt seldi Norðurþing sinn hlut í skólanum til Þingeyjarsveitar.

Atli Vigfússon
Atli Vigfússon

Þetta eru veruleg vonbrigði fyrir Reykhverfinga og mikið inngrip í það samfélag sem sveitin hefur verið í.  Hafralækjarskóli hefur verið mjög sterkur kjarni á svæðinu í 40 ár, þar sem fólkið í sveitunum hefur unnið að sameiginlegum markmiðum. Þarna hafa kynni fólks á öllum aldri verið styrkt og með samvinnu margra hefur verið haldið úti góðum skóla, enda hafa Reykhverfingar verið ánægðir með skólagöngu barna sinna.

Ákvörðun bæjarstjórnar Norðurþings hefur ekki verið rökstudd með neinu öðru en því að ekki séu lengur til peningar til þess að kosta börn í Reykjahverfi til þess að ganga í Hafralækjarskóla og það sé mun ódýrara að hafa börnin á Húsavík. Auðvitað er það eitthvað dýrara þar sem lítill sveitaskóli hlýtur alltaf að vera kostnaðarsamari á hvern nemanda heldur en nær 300 barna grunnskóli og kemur sannarlega margt til. Ekki má þó líta svo á að stór skóli sé eitthvað verri skóli og tek ég sérstaklega fram hér að Borgarhólsskóli er góð stofnum og hef ég haft ágæt kynni af nemendum og starfsfólki þar.

Það vekur hins vegar mikla athygli að í Borgarhólsskóla eru mötuneytismál í miklum ólestri. Ég tel það ekki viðunandi aðstæður að börn þurfi að búa sig út og fara yfir umferðargötu til þess að fara í hádegismat og borða þar jafnvel í úlpum. Það var döpur frétt í Skarpi þegar starfsfólk Borgarhólsskóla þurfti að fara með undirskriftir til bæjarstjóra til þess að þrýsta á það að fá mötuneyti inn fyrir veggi stofnunarinnar. Þetta átti að vera löngu komið.

Fjöldi barna í Reykjahverfi er ekki meiri en svo að þau má telja á fingrum handanna og því er það ekki trúverðugt að ekki séu til peningar til þess að hafa þau í sínum sveitaskóla áfram. Reykjahverfi er mjög öflug sveit miðað við íbúatölu, en þar eru nokkur stór fyrirtæki, mikil landbúnaðarframleiðsla, öflug ferðaþjónusta, miklar byggingar, stórar jarðir, sumarhúsabyggðir og m.fl. Af öllu þessu hefur sveitarfélagið Norðurþing tekjur. Peningarnir eru þá greinilega ekki ætlaðir börnunum ef það eru rökin að ekki séu lengur til aurar til þessa að kosta örfá börn í Hafralækjarskóla.

Framkoma bæjarstjórnar hefur verið einkennileg í málinu t.d. með því að selja hlut sveitarfélagsins í Hafralækjarskóla án þess að tala við íbúana og með því að kanna hug þeirra til nýrrar skólastefnu með eðlilegum fyrirvara.  Þá var það furðulegt að senda fræðslu-og menningarfulltrúa sveitarfélagsins til þess að setja ungri fjölskyldu stólinn fyrir dyrnar með leikskólavist í Aðaldal kvöldið áður en barnið átti að fara í leikskólann nú eftir áramótin.

Alltaf er peningaleysi borið við, en margir héldu að skólaganga barnanna gæti verið með svipuðum hætti og verið hefur þ.e. meirihluti nemenda í Hafralækjarskóla, en aðrir í Borgarhólsskóla ef foreldrar óska þess sérstaklega vegna vinnu sinnar og annarra aðstæðna. Að fara á milli skólahverfa er vel þekkt t.d. í Reykjavík og trúa má því að Þingeyjarsýsla verði eitt sveitarfélag í framtíðinni og girðingar milli skóla því óþarfar.

Ég virði að sjálfsögðu tillögu fræðslu-og menningarfulltrúa sem og sumra bæjarfulltrúa um að nemendur á unglingastigi, sem nú eru fjórir,  fái að klára nám sitt á næstu tveimur árum við Hafralækjarskóla.  Hins vegar vakti mikla athygli á íbúafundinum í Heiðarbæ á dögunum hversu illa bæjarfulltrúar voru undirbúnir í málinu og var helst að heyra á þeim að bændur ættu sjálfir að aka börnum sínum í Hafralækjarskóla ef þau óskuðu þess að klára sitt nám þar. En vegna vinnu sinnar er ljóst að fólkið getur ekki bætt því við sína stundaskrá að gerast skólabílstjórar og eru nú góð ráð dýr.

Sveitarfélag sem getur byggt íþróttavöll fyrir meira en tvö hundruð milljónir, tekið þátt í kínverjaævintýri og fleiri gæluverkefnum getur ekki verið svo fátækt að það hafi ekki efni á skólagöngu örfárra barna. Með ákvörðun sinni, um að svipta Reykhverfinga skóla sínum til 40 ára, hefur bæjastjórn Norðurþings sent kalda kveðju í sveitina, valdið fólki vonbrigðum og sýnt tilfinningum tómlæti.  –Ég hvet bæjarfulltrúa Norðurþings að taka ákvörðun sína til baka.

Atli Vigfússon.

Höfundur er kennari og starfaði um árabil við Hafralækjarskóla.