Kinnungar fæddir 1945-1965

0
229

Kinnungar 1945-1965 er hópur fólk sem var á einhverjum tíma, mislengi þó, í skóla í Ljósvetningabúð, þó ekki allir, því áður en farið var að kenna í Ljósvetningabúð, var kennt á ýmsum bæjum í sveitinni. Þeir bæjir eru Hóll, Landamót, Fremstafell og Arnþórsgerði. Á þessum árum var skólastarf í mikilli þróun. Þessi hópur kom saman laugardaginn 10. ágúst til að rifja upp gamlar og góðar minningar, endurnýja vinskap og syngja saman.

Kennarar þeirra voru heiðurshjónin Sigurður Jónsson og Kolbrún Bjarnadóttir í Ystafelli. Þau voru kennarar af guðs náð, náðu vel til barnanna og uppfræddu þau af alúð og virðingu. Siggi og Kolla voru yfirleitt með um 50 nemendur í yngri og eldri deild.

Þær sem stóðu fyrir því að ná hópnum saman og skipuleggja voru Kolbrún Friðgeirsdóttir frá Þóroddstað, Kristjana Skúladóttir frá Stórutjörnum og Helga Sigurðardóttir frá Ystafelli.

Ákveðið var að hefja samveruna á því að koma saman á Stórutjörnum í Gallerí Surtlu þar tók Laufey Skúladóttir á móti fólkinu með hjónabandssælu og kaffi. Fyrst til að byrja með þekktu ekki allir alla, en eftir smá stund náðu þau vel saman og mikið var knúsast og hlegið. Þaðan lá leiðin til Sverris Ingólfssonar og Samgönguminjasafnið skoðað, kverkarnar vættar, spilað og sprellað. Sverrir og Laufey sóttu bæði skóla í Ljósvetningabúð.

hópurinn hjá Sverri á Samgönguminjasafninu
hópurinn hjá Sverri á Samgönguminjasafninu

 

 

 

 

 

 

 

Þá lá leiðin í Ljósvetningabúð, þar var búið að dekka upp tvö langborð því pantaður hafði verið matur frá Bautanum. Samkoman hófst á því að Helga Sigurðar bauð alla velkomna því sumir komu bara í matinn, þá stjórnaði Þórhallur Bragason frá Landamótseli fjöldasöng við undirleik Sigurðar Skúlasonar frá Stórutjörnum, aðallega voru sungin lög úr Skólasöngvum 1 og 2, en uppúr þeim bókum hafði Sigurður heitinn verið duglegur við að láta nemendur sína syngja. Þórhallur fékk svo allan salinn til að standa á fætur og dilla sér með í laginu Ó Jósep Jósep.

Þórhallur stjórnar fjöldasöng og Sigurður leikur undir, frábærlega góðir báðir tveir.
Þórhallur stjórnar fjöldasöng og Sigurður leikur undir, frábærlega góðir báðir tveir.

 

 

 

 

 

 

 

 

borðhaldið að hefjast
borðhaldið að hefjast

 

 

 

 

 

 

 

Eftir borðhaldið fór fólkið að rifja upp ýmsar skemmtilegar minningar og þar kenndi ýmisa grasa.Það er með ólíkindum hvað Siggi og Kolla hafa verið óþreytandi við að vinna með börnunum. Það voru sett upp leikrit, þar voru nefnd leikverkin Skugga Sveinn, Grámann í Garðshrorni og Ása. Það var margt  sem þau höfðu gaman af að rifja upp, og alltaf fylgdu hlátursrokur með, ein sagði frá því að mamma hennar,  Bibba í Felli, hafði saumað á hana upphlut fyrir leik í Ásu, annar sagði frá því að þegar Skugga Sveinn var sýndur voru óveðurshljóðin svo eðlileg að yngstu börnin urðu hrædd. Mikið var sungið hjá Sigga og Kollu sú hefð var að láta einhverja tvo stráka syngja Útnesjamenn, það var skorað á Baldur Baldvinsson frá Rangá og Braga Vagnsson frá Hriflu að koma upp og syngja þetta lag sem og þeir auðvitað gerðu með stæl og tilþrifum.

Baldur og Bragi syngja saman
Baldur og Bragi syngja saman

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Keðjusöngvar voru vinsælir, af því tilefni lét Þórhallur Bragason salinn syngja Sá ég spóa suð´rí flóa, það gekk nokkuð vel, svona í annarri tilraun. Kolla kenndi “krökkunum” dans og síðar um kvöldið var dansað Janka og mikið hlegið, því sumir voru eitthvað farnir að ryðga í þessum dansi. Það var greinilegt á orðum allra, sem tóku sér míkrafón í hönd þetta kvöld, að gömlu nemendurnir bera mikla virðinu og hlýju í brjósti til Sigga og Kollu og þessara skólaára eða eins og ein sagði “það var alltaf gaman”. Það var því mjög ánægjulegt fyrir alla að Kolla sem er orðin 85 ára kom frá Húsavík og borðaði með gamla nemendahópnum sínum. Hún naut söngsins og nemendurnir færðu henni miklar þakkir, fyrir svo ótal margt, sem hún hefur gert fyrir þau, eða eins og einn komst að orði, “það verður seint fullþakkað”.

Ásvaldur Þormóðsson og Kolla.
Ásvaldur Þormóðsson og Kolbrún Bjarnadóttir.

 

 

 

 

 

 

 

Það var greinilegt að þessi hópur Kinnungar 1945-1965 nutu þess að hittast, það ríkti svo mikil gleði, virðing og vinátta á milli þeirra, enda var ákveðið að velja nýja nefnd til að undirbúa annan hitting síðar.

 

Kristjana Skúladóttir tók myndina af hópnum við Samgönguminjasafnið  aðrar myndir tók Heiða Kjartans.