Kindum bjargað úr fönn í Mývatnssveit.

0
295

Bændur í Mývatnssveit hafa undanfarna daga verið að smala saman fé við frekar erfiðar aðstæður.  Björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit hefur aðstoðað bændur við smölunina og hafa notað snjóbíl til verksins. Daði Lange Friðriksson, bóndi í Skútahrauni í Mývatnssveit sagði í spjalli við 641.is í kvöld að þrjár kindur hefðu fundist dauðar í fönn en búið væri að draga þær nokkrar á lífi úr fönn.  Mikill snjór er í afréttarlöndum Mývetninga og Daði sagði að bændur væru að upplifa keimlíkt ástand og í fyrra.

Kindur fluttar á snjóbíl. Mynd: Daði Lange Friðriksson
Kindur fluttar á snjóbíl. Mynd: Daði Lange Friðriksson

Búið var að fara í fyrstu göngur á þessu svæði en ekki var búið að fara í aðrar göngur þannig að eitthvað af fé er enn á svæðinu. „Þetta er bara copy paste frá því í fyrra” sagði Daði Lange . Menn eru að reyna að skanna svæðið og finna það fé sem hægt er að finna. Mjög erfitt göngufæri er vegna mikilla snjóa og notast bændur við vélsleða og snjóbíl. Daði taldi að miðað við veðurspá væri ólíklegt að þennan snjó tæki upp aftur. Daði sagði að  heimtur væru slæmar í Mývatnssveit þetta haustið og vantar margt fé á mörgum bæjum.

Óveðrið um sl. helgi skemmdi eða eyðilagði Landgræðslugirðingar í Mývatnssveit annað árið í röð og óttaðis Daði að margir tugir kílómetra af girðingum væru ónýtar. Þetta er bara alveg eins og í fyrra og líklega er meira skemmt af girðingum núna en þá, sagði Daði Lange að lokum.

Snjóbíllin kom sér vel við smölunina. Mynd: Daði Lange Friðriksson
Snjóbíllin kom sér vel við smölunina. Mynd: Daði Lange Friðriksson
Kjarrlendi illa farið eftir óveðrið um sl. helgi. Mynd: Daði Lange Friðriksson.
Kjarrlendi illa farið eftir óveðrið um sl. helgi. Mynd: Daði Lange Friðriksson.