Kátir eru karlar

0
158

Mannlífið í sveitinni.

Hér í sveit eru tveir karlar sem sjást oft á gangi, í sjálflýsandi vestum. Þeir arka um sveitina jafnt sumar sem vetur, stundum á miðjum vegi, sérstaklega þegar það er lítil umferð. Þetta eru þeir Agnar Þorsteinsson bóndi á Öxará og Sigrtyggur Vagnsson bóndi í Hriflu. Agnar eða Aggi eins og hann er alltaf kallaður, og Sigtryggur kynntust haustið 1966, þegar þeir fóru að hittast við brúsapallinn við Kvíslárbrúna. Í þá daga keyrðu þeir með mjólkurbrúsana í veg fyrir mjólkurbílinn. Agnar hefur síðan unnið við nánast allar byggingar hjá Sigtryggi í Hriflu, og þeir hafa baukað ýmislegt saman.

þeir sjást vel karlarnir
þeir sjást vel karlarnir

 

 

 

 

 

 

 

Agnar fór í hjartaþræðingu og fóðrun haustið 2005 og dvaldi um tíma á Reykjalundi og var ráðlagt af læknum að hreyfa sig meira. Sigtryggur segir: „það stóð auðvitað tæpt með hann Agga þarna, ég ákvað þá að reyna að halda lífinu í kallinum og fá hann út að ganga með mér, en að öllu gamni slepptu þurfti ég svo sem einnig  því að halda að hreyfa mig meira“. Þannig hófust þessar göngur þeirra. Síðan hafa þeir gengið daglega þegar tími vinnst til  „en Agnar hefur alltaf haldið hvíldardaginn heilagan“  segir Sigtryggur sposkur á svip. Á göngum sínum ræða þeir landsins gagn og nauðsynjar, rífast gjarnan og þegar þeir eru orðnir reiðir, þegja þeir um stund og arka áfram. Þeir segjast leggja sig fram um að vera ósammála og eru ekki á sömu bylgjulengd í pólitík  annar trúir á Steingrím hinn á Sigmund Davíð. Hvorugur reynir þó að snúa hinum, því þeir segjast vera svo miklir þverkálfar og stífir á sinni meiningu, að það muni ekkert þýða. Aggi skaut því á Sigtrygg að hann tryði því svo ákaft að Sigmundur Davíð héldi í hendina á honum, að hann taldi sig ekki þurfa að vera á mannbroddum í hálkunni s.l.  vetur. Sigtryggur skaut þá á Agnar „já en það varst nú samt þú sem dast í vetur en ekki ég“  fréttaritari hváir  „já hann datt á mig og við skullum báðir kylliflatir“  segir Sigtryggur, svo hlægja þeir hvor að öðrum.

það er alltaf létt í þeim
það er alltaf létt í þeim

 

 

 

 

 

 

 

Þessir garpar ganga sem sagt bæði sumar og vetur, þeir hittast um tíu leytið eða eftir morgunverkin, stefnan er að ganga aldrei minna en 3 km oftast er gengið lengra. Þeir ganga víðs vegar um sveitina inní Bárðardal hafa þeir t.d. heimsótt heiðurshjónin á Mýri, gengið í Fnjóskadal, út í Kinn, i Ljósavatnsskarðinu og á vetrum kíkja þeir stundum í kaffi í Stórutarnaskóla.  Okkar er oftast vel tekið segja þeir,  við fáum okkur kaffi á bæjunum og höfum meira að segja fengið útí það. Það gerir göngurnar svo miklu skemmtilegri að ganga svona vítt og breitt um sveitina, og svo héldu þeir áfram göngunni.

Sigtryggur til vinstri og Agnar hægra megin.
Sigtryggur til vinstri og Agnar hægra megin.