Karlakór og hálfvitar leiða saman hesta sína

0
191

Fertugsafmæli er ekki verri tími en annar til að fá klikkaðar hugmyndir – og framkvæma þær. Það sannast þessa dagana hjá hinum fjörutíu ára gamla þingeyska karlakór Hreimi. Þar á bæ datt þeim í hug að bjóða hinni þjóðþekktu gleðisveit Ljótu hálfvitunum í afmælið. Hljómsveitin er vissulega úr sömu sveit, en dvelur að jafnaði í allt öðru tónlistarlandi. Engu að síður þáði hún boðið með þökkum.

Eftir skipulagsfund Hreimsmanna og Hálfvita að Möðruvöllum var ákveðið að hafa helgistund í kirkjunni. Það fór nú bara eins og það fór.
Eftir skipulagsfund Hreimsmanna og Hálfvita að Möðruvöllum var ákveðið að hafa helgistund í kirkjunni. Það fór nú bara eins og það fór. Mynd af facebooksíðu Ljótu hálfvitanna.

Veislan verður í félagsheimilinu að Ýdölum annað kvöld, laugardaginn 11. apríl og endurtekin sunnan heiða í Háskólabíói viku síðar, þann 18.

Á tónleikunum munu bæði Hreimur og Hálfvitar flytja tónlist á sinn hefðbundna hátt, en jafnframt rugla reitum. Þannig hefur hljómsveitin útsett nokkur alþekkt lög af efnisskrá Hreims eftir sínu höfði og leikur undir hjá kórnum. Einnig hafa nokkur af lögum Hálfvitanna fengið karlakórsmeðferð og þar mun Hreimur taka undir af öllum lífs- og sálarkröftum. Óhætt er að segja að talsverð tilhlökkun hafi gert vart við sig í herbúðum beggja.

Tónleikarnir að Ýdölum hefjast kl. 20.30 en í Háskólabíó verður síðdegisskemmtun sem hefst kl. 15. (Akureyri.net) Ljótu hálfvitarnir á Facebook