Kaffi Draumur

0
477

Í gamla barnaskólanum á Skógum hefur verið rekið kaffihús undanfarin ár. Mæðgurnar Margrét Pálsdóttir og Ólína Jónsdóttir frá Akureyri tóku við rekstrinum í fyrra og njóta aðstoðar heimilisföðurins Jóns Andréssonar. Margrét og Ólína sáu auglýst eftir rekstraraðilum í Dagskránni og ákváðu að prufa enda hafa þær báðar gaman að því að baka og skreyta kökur.

Jón, Ólína og Margrét.

Það hefur gengið mjög vel í sumar og þau finna mikinn mun frá síðasta sumri. Reyndar koma erlendir ferðamenn síður og núna þegar Íslendingarnir ferðast meira koma fleiri gestir.  Þeim mæðgum finnst íslenskir gestir bæði góðir og þolinmóðir. Það var kaffihlaðborð hjá þeim 17. júní og fullt út að dyrum. Fólk beið þolinmótt eftir sæti og var hið elskulegasta. Enda biðin þess virði, kaffihúsið fær góðar umsagnir fyrir góðar veitingar og sanngjarnt verð.

Hús með sál og sögu.

Húsið er ríflega aldargamalt og var rekinn í því barnaskóli allt til 1972. Í húsinu er safn um skólann og saga hans sögð í máli og myndum. Auk þess eru gamlar námsbækur og verkefni til sýnis. Reyndar varð hinn kornungi fréttaritari afar undrandi að sjá kunnuglegar námsbækur komnar á bak við safngler.

Námsbækur og verkefni bak við gler en velkomið að fletta bókunum í hillunum.

Nýlega lauk ljósmyndasýningu Einars Axels Sciöth í hliðarsalnum og 29. júlí opnaði málverkasýning Sólveigar Jónsdóttur frá Sólvangi.

Margrét, Ólína og Jón eru sammála um að góður andi sé í húsinu og þeim líði vel að starfa þar.

Næstu helgi verður hlaðborð, bæði laugardag og sunnudag, og opið frá 12:00-17:00. Gerðar verða ráðstafanir vegna hertra reglna.

Skoðið endilega síðu kaffihússins á snjáldurskinnu fyrir frekari upplýsingar.

Kaffihúsagestir.

Ljósmyndir: Gunnar Marteinsson.