Kæru sveitungar

0
87

Þá eru jólin að baki, friðar- og fjölskylduhátíð allra Íslendinga – trúaðra jafnt sem trúlausra, og nýtt ár gengið í garð. Það þykir til siðs að heilsa öllum í upphafi nýs árs með óskum um gleðilegt nýtt ár auk þess sem margir láta óskir um farsæld fylgja kveðjum sínum fyrir jólin til vina og kunningja. Ég vil því nota þetta tækifæri og senda öllum íbúum Þingeyjarsveitar hugheilar óskir mínar um að nýhafið ár megi færa okkur öllum bæði gleði og farsæld.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

 

Sjálfur naut ég hátíðanna, gladdist og gerði mér dagamun, þrátt fyrir þá staðreynd að eingöngu viku fyrir jól varð endanlega ljóst að núverandi meirihluti sveitarstjórnar hefur tekið ákvörðun um framtíðarskipan skólamála í Þingeyjarsveit sem ég tel að muni hafa verulega skaðleg áhrif á samfélagið.

 

 

 

Allt frá því fyrir sveitarstjórnarkosningar sl. vor hefur verið ljóst að í þetta gæti stefnt og því hafði ég síðan þá reynt að benda bæði á það hversu skammsýnt það er að skoða ekki skólamálin í sveitarfélaginu í heild sinni og eins öll þau rök sem hníga að því að tilvera grunnskóla á Laugum er mikilvæg grunnstoð í Þingeyjarsveit sem tryggir að þau fyrirtæki sem þar eru og sá kjarni sem byggst hefur utan um þau nái áfram að eflast og styrkja rekstur sveitarfélagsins. Það var von mín að með umræðu og málefnalegum rökum mætti opna augu kjörinna fulltrúa fyrir því sem mér finnst sjálfum svo augljóst – að ef ekki er grunnskóli á Laugum mun það hafa verulega neikvæð áhrif á byggðakjarnan, leiða til neikvæðrar byggðarþróunar og grafa undan rekstri sveitarfélagsins. Það er auðvitað svo að lokun hvaða grunnskóla sem er hefur neikvæð áhrif og því farsælast ef hægt er í rekstri sveitarfélags að komast hjá því. Staðreyndin er því miður hins vegar sú að íbúum Þingeyjarsveitar hefur farið fækkandi og þar hefur fækkunin orðið hlutfallslega mest meðal barna og fólks á barneignaraldri. Tekjur sveitarfélagsins eru litlar og rekstur skóla lang stærstiútgjaldaliðurinn. Það er því ekkert óeðlilegt við það að sveitarstjórn dragi saman og spari.

Lokun grunnskóla er skerðing á grunnþjónustu í sveitarfélagi og því afar mikilvægt að vel sé vandað til framkvæmdarinnar og allt gert til þess að tryggja að farin sé sú leið sem til lengri og skemmri tíma er til mestrar farsældar fyrir íbúana og rekstur sveitarfélagsins. Ekkert er okkur öllum eins kært og börnin og velferð þeirra. Margir sem búið hafa og þekkja fámenn dreifð sveitarsamfélög vitna að í slíku samfélagi verður grunnskólinn oft eins og miðstöð sem helst má líkja við hjarta líkamans – lífsnauðsynlegt líffæri, heimili kærleikans. Það verður því regla, með þó því miður einhverjum örfáum undantekningum þó, að öllum þykir vænt um skólann „sinn.“ Þarna alast jú börn allra að hluta til upp, takast á við áskoranir, vinna sigra og komast til manns. Reglulega er sveitinni stefnt saman í skólann við ýmis tækifæri til að fylgjast með börnunum sýna leikni sína og færni t.d. með hljóðfæri, á dansgólfi, á leiksviði eða á tímamótum þegar einir ljúka sínum tíma í skólanum og aðrir byrja sinn. Þetta eru gleðiríkar stundir, oft tilfinningaþrungnar og fylla marga fullorðna stolti. Ég held að þó svo að stórir og fjölmennir skólar í þéttbýli séu að gera sömu hluti fyrir börnin og boði foreldrana til svipaðra viðburða og litlu sveitaskólarnir þá skapast sjaldnast sú nána taug milli samfélagsins og skólans þar. Skólinn verður bara einn af mörgum stöðum sem hafa áhrif á og halda utan um barnið í þéttbýlinu. Vonandi góður og mikilvægur staður en meira eins og hryggjaststykki í stórri beinagrind frekar en hjartað sjálft. Það er ekki síst sökum þessa stóra hlutverks sem skóli gegnir í fámennum og dreifðum byggðum að breytingar verða oft erfiðar og mikil tilfinningamál og einmitt af sömu ástæðu er það alveg geysilega erfitt fyrir fólk að taka ákvarðanir sem byggja á rökum og skynsemi. Þegar ég skoða það ferli sem hefur átt sér stað, framvindu þess, þau gögn sem lögð hafa verið fram og síðast en ekki síst þau rök sem færð eru fyrir þeirri ákvörðun sem liggur fyrir þá verð ég því miður að draga í efa að vinnubrögð meirihlutans séu jafn fagleg og þau gefa sjálf í skyn.

Rekstur og staðsetningar grunnskóla er stórt mál fyrir Þingeyjarsveit. Ég get ekki setið aðgerðarlaus og horft upp á kjörna fulltrúa taka ákvörðun sem ég tel grafa undan sveitarfélaginu mínu. Skrif mín og rökræða virðist ekki ná eyrum þeirra og ég sé mér því þann einn kost nauðugan að grípa til mótmæla. Ég mun vera fyrir utan skrifstofu sveitarfélagsins á meðan sveitarstjórnarfundur stendur yfir og láta í mér heyra og hvet alla þá sem deila skoðunum mínum til þess að mæta.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson.