Kæri Jónas

0
106

Um tíma í haust var ég að verða eini maðurinn sem skrifaði hér á 641.is til þess að leiðbeina stjórnvöldum.  En nú hefur töluvert bæst í hópinn, sem er alveg frábært, því hvar væru stjórnvöld stödd án slíkra leiðbeininga. Alveg sérstaklega gladdi það mig að sjá að þú Jónas minn skrifaðir nú nýverið leiðbeinandi grein.

Gísli Sigurðsson
Gísli Sigurðsson

Einu var ég þó svolítið hissa á, það kom mér satt að segja dálítið á óvart, en það var að þú tækir upp á því að fara að leiðbeina mér! Eins og þú veist þá hef ég setið í stjórn Sorpsamlags Þingeyinga þetta kjörtímabil, og ber því nokkra ábyrgð á sorpmálum okkar Þingeyinga. Í grein þinni spyrð þú allmargra spurninga varðandi sorpmálin. Eins og venjulega þá verður fátt um svör þegar stórt er spurt, en ég ætla þó að reyna að svara einhverju eftir því sem ég hef vit og getu til, enda finnst mér það sjálfsögð kurteisi að svara þeim sem við mig tala.

 

Um alllanga hríð hafa Þingeyingar brennt sínu sorpi. Um aldamótin síðustu þótti ljóst að þær brennslur sem notaðar höfðu verið væru ekki nógu góðar. Þær lyktuðu illa og frá þeim barst reykur, þeim var því lokað að kröfu yfirvalda. Þar sem mjög kostnaðarsamt  er að byggja góða sorpbrennslu, þá brugðu menn á það ráð að reyna finna stað til að urða sorpið, sem er að jafnaði mun ódýrara. Urðunarstaður fannst á Tjörnesinu, en eftir næstu sveitarstjórnarkosningar ákvað ný sveitarstjórn Tjörnesinga að taka ekki við sorpi til urðunar frá okkur Þingeyingum öllum. Engir aðrir fundust heldur sem vildu taka við sorpinu, og því voru góð ráð dýr.

Það varð úr að farið var í að byggja nýja brennslustöð við Húsavík, sem hóf starfsemi vorið 2006. Á þeim tíma uppfyllti hún öll skilyrði yfirvalda varðandi mengun. En svo voru reglur hertar, og allt í einu var brennslan sem áður var svo umhverfisvæn, orðin stórhættuleg umhverfi sínu. Án þess þó að útblásturinn hefði nokkuð breyst. Ofnarnir reyndust heldur ekki eins vel og vonast hafði verið til, ýmis óhöpp hafa líka orðið við reksturinn svo viðhaldskostnaður hefur verið gríðar mikill. Sorpsamlagið stendur því mjög illa, og þrátt fyrir að sorpgjöld á íbúa hafi verið mjög há, þá hafa sveitarfélögin ítrekað þurft að leggja samlaginu til mun meira fé en sem nemur sorpgjöldum. Einn ágætur þingmaður fór síðan af gæsku sinni í einhverskonar herferð á síðasta kjörtímabili gegn sorpbrennslunni í sinni heimabyggð, sem hefur skilað þeim árangri að nú er búið að loka öllum sorpbrennslum á landinu, utan einni. Ekki síst vegna meintrar Díoxín mengunar sem talið er að þær dreifi í kring um sig. Reyndar hefur ekkert Díoxín fundist í kring um brennslurnar þrátt fyrir sýnatökur og rannsóknir, en það er samt ekki hægt að útiloka það sé þarna einhvers staðar, gæti bara verið að  fela sig. Og náttúran verður að fá að njóta vafans, eins og sagt er. Sveitarstjórnarmenn sem fyrir fáum árum voru hylltir fyrir þá framsýni að nýta sorpbrennslur til að kynda skóla og sundlaugar, eru nú meðhöndlaðir af fjölmiðlum eins og glæpamenn sem stofna lífi og limum þegnanna í stórhættu, með því að vera ekki löngu búnir að loka sínum brennslum.

Og hvað er þá til ráða? Talið er að hægt sé að fá brennsluofna sem uppfylla núverandi skilyrði um mengun á Íslandi. Slíkir ofnar kosta peninga, mikla peninga, jafnvel milljarða. En þó að við hefðum þessa milljarða til að kaupa slíka ofna, þá er annað vandamál við að glíma. Til að sem minnst mengun verði af brunanum þá þarf að brenna við hátt hitastig, og því er best að brenna allan sólarhringinn. Mata ofninn jafnt og þétt, í hæfilegu magni. En eins og við vitum báðir Jónas minn, þá er allt of lítið til af Þingeyingum. Og svona fáir Þingeyingar búa til voðalega lítið af sorpi. Þannig að til að reka slíka brennslu þarf sorp af miklu stærra svæði. Hingað til hafa nágrannar okkar ekki fengist til að koma að því að reka svona brennslu þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað, fyrir þá er miklu ódýrara að aka sorpinu vestur í Húnaþing til geymslu. Og hvernig getum við þá réttlætt að verja einum til tveimur milljörðum af almannafé til að setja upp nýja brennslu, vitandi ekkert hvenær stjórnvöldum dettur í hug að breyta mengunarreglugerðum næst, og hafandi ekki meira sorp til að brenna?

Kannski áttar þú þig nú á því Jónas minn að það er ekki eingöngu vegna hugmyndaskorts og fyrir heimsku sakir, að við höfum neyðst til að hefja flutning á okkar sorpi vestur í Húnaþing. Þar sem það er grafið í jörð til geymslu fyrir komandi kynslóðir, við hliðina á ættlausu eyfirsku og húnversku sorpi.  Sú ákvörðun er búin að vefjast lengi fyrir okkur og engum sem að henni hefur komið finnst hún í raun góð, við höfum bara ekki fundið aðra betri.

Góðar hugmyndir að úrlausn viðfangsefna eru alltaf vel þegnar. Þú nefnir nokkur atriði sem minnkað gæti þann vanda sem við er að fást, og það er hárrétt hjá þér að ef sorpið minnkar þá lækkar kostnaðurinn eitthvað.  En urðun á dýrahræjum og öðrum úrgangi heimafyrir er þó samkvæmt lögum og reglugerðum stórhættuleg iðja, og alveg bönnuð. Fyrir nokkrum árum var sett upp glæsileg moltugerð í Eyjafirði eins og þú manst Jónas minn, það var töluvert fjallað um þá góðu lausn í fjölmiðlum. Þar átti að taka við öllum lífrænum úrgangi af stóru svæði og afurðina átti að selja bændum og öðrum til áburðar og landbóta. Leit mjög vel út rekstrarlega. Aðeins þurfti að passa að þrjár vikur liðu áður en skepnum væri beitt á land það sem moltan var borin á. Með einni reglugerðarbreytingu lengdi ráðherra þennan þriggja vikna frest í tíu ár. Svona til að láta náttúruna njóta vafans. Mér skilst að síðan hafi fáir verið tilbúnir til að greiða fyrir moltuna, né taka við henni fyrir ekki neitt.

Flokkun sorps hefur lengi verið í skoðun og til umræðu. Vandinn er bara sá, að þó að sorp sé flokkað í tvö eða fleiri ílát, þá minnkar umfangið ekki við það. Kostnaðurinn við hirðinguna hækkar hins vegar umtalsvert, því halda verður hinu flokkaða sorpi aðskildu í flutningi og jafnvel þarf að flytja sinn flokkinn í hverja áttina. Allar þessar svokölluðu flokkunarlausnir eru þess vegna mjög dýrar í framkvæmd í dreifðum byggðum, og hingað til hefur töluverðu af þessu flokkaða sorpi þar að auki verið blandað saman aftur til urðunar eða brennslu á sama stað. Vegna þess að það er ódýrara en að reyna að gera eitthvað úr því. Rúlluplast hefur til dæmis verið sótt sérstaklega til bænda og flutt til Akureyrar til endurvinnslu. En vegna þess hvað mikið fylgdi með plastinu af garni, heyrusli og öðru, þá var mikið af því flutt til Húsavíkur þar sem því var blandað saman við annað sorp og brennt. Ekki veit ég hvað gert er við það í dag, en geri ráð fyrir að það sé flutt til geymslu í Húnaþingi. Reyndar hef ég séð að sumir bændur hafa brugðist við þessu vandamáli með því að skola af plastinu og hengja það til þerris á girðingar í kring um bæi sína, og eiga þeir hrós skilið fyrir það framtak. En það hlýtur að vera mikil vinna, sem ekkert fæst fyrir.

Bílar sem flytja flokkað sorp landshorna á milli menga heldur ekkert minna en þeir sem flytja óflokkað sorp. Kannski er ekki rétt að blanda útblæstri bíla í þessa umræðu, því mengun frá umferð er í allt öðru Excel skjali í Umhverfisráðuneytinu en mengun vegna sorps. Við verðum að átta okkur á að þó að mengun frá sorpflutningum aukist við lokun brennslunnar, þá má ekki blanda henni saman við útreikninga á mengun frá sorpbrennslunni. Þá verða útreikningarnir bara svo flóknir að umhverfisyfirvöld ráða alls ekki við þá. Og ekki viljum við verða til þess. Náttúran verður að fá að njóta vafans í þessu sem öðru, eins og þú skilur Jónas minn. Þó að flokkun og endurvinnsla sorps geti gengið vel í milljónaborgum erlendis, þá er ekki víst að það sama eigi við í Bárðardal eða Aðaldal. Magnið er svo lítið Jónas minn, Þingeyingar allt of fáir.

„Við verðum að vera borgunarfólk fyrir lifnaðarháttum okkar“ segir þú, og því er ég sammála. Og auðvitað borgum við þetta líka allt saman, með einum eða öðrum hætti. Reyndar hef ég bara hitt einn mann áður sem vill hækka sorpgjöldin, flestum finnast þau nú meira en nógu há. Mér skilst þó að þú setjir þann fyrirvara að þú viljir einungis greiða fyrir þitt sorp það sem það kostar og ekki annarra, þar sem þú látir frá þér færri kíló en sumir aðrir. Þetta er nú svolítið vandmeðfarið Jónas minn, því það gæti komið upp að einhver færi fram á að greiða aðeins fyrir þá kílómetra sem hans sorp er flutt og ekki fyrir flutninginn á annarra manna sorpi. Enn annar gæti haldið því fram að hans sorp væri sérleg ódýrt í förgun eða minna að rúmmáli heldur en annað sorp miðað við þyngd, og vildi því fá að greiða lægra gjald. Þá færi nú málið að vandast.

Fyrir rétt tæpum 132 árum komust Þingeyingar að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að vinna saman og standa saman. Á því græddu allir. Þó nokkuð hafi fjarað undan þeirri hugmynd síðustu árin, þá held ég að það eigi við um sorphirðu enn í dag, og jafnvel fleira.

Að lokum vil ég taka undir áskorun þína til væntanlegra frambjóðenda í komandi sveitarstjórnarkosningum, að þeir leggi fram vitrænar tillögur í sem flestum málum. Það er að vísu eitt með þessar vitrænu tillögur, menn eru ekki endilega allir sammála um hvað er vitrænt og hvað ekki. Það má til dæmis sjá af því, að það sem ég hef verið að bardúsa í stjórn Sorpsamlags Þingeyinga af sérlega skynsamlegu viti að mér finnst, það virðist mér Jónas minn að þú teljir aftur á móti alveg ótrúlega vitlaust. Frambjóðendum er því nokkur vandi á höndum, eins og jafnan.

Lifðu heill Jónas minn, og allt þitt fólk.

Gísli Sigurðsson.