Jólaveðrið í S-Þingeyjarsýslu

0
122

Það er útlit fyrir að veður um jólin verði rólegt sem er eflaust kærkomin hvíld fyrir marga eftir mjög órólega tíð það sem af er desember. Á aðfangadag er útlit fyrir hæga norðlæga eða breytilega átt og lítilsháttar él. Líklega rofar til þegar líður á daginn, fyrst í innsveitum. Þar sem nær að létta til í hægum vindi getur frostið náð sér á strik og orðið meira en 10 gráður.

Jólaveðurspáin 2014
Spá um stöðu veðrakerfa á N-Atlantshafi 24. des. kl. 18. Lítið er að gerast á kortinu, sérílagi miðað við síðustu vikur. Langt er á milli þrýstilína yfir Íslandi og vindur hægur. Gulir blettir á myndinni tákna að líkur séu á dálitlum éljum.

 

Á jóladag er gert ráð fyrir sunnan 3-8 m/s og úrkomulausu veðri, en þunn háskýjabreiða yfir. Frost víða á bilinu 5 til 10 stig.

Á annan í jólum er útlit fyrir hæga breytilega átt, en líkur á éljum.

Það má nefna að spár síðustu daga gerðu ráð fyrir að illviðrislægð myndi nálgast landið síðdegis 26. des. og ráða ríkjum áfram þann 27. Spárnar í dag (22. des) gera ráð fyrir að lægðin haldi sig fjarri Íslandi, en herji á Skotland og Færeyjar í staðinn. Þeir sem eiga eitthvað undir veðri síðdegis á annan í jólum og á 27. des. ættu þó að fylgjast með nýjustu spám, ef ske kynni að óveðurslægðin tæki aftur stefnuna á Ísland.

(Spá gerð 22. desember TA.)