jólasveinamamman Kristín Sigurðardóttir í Tjarnarborg

0
222

Út var að koma nýtt tölublað af lífsstílsblaðinu Sumarhúsið og Garðurinn, og þar er meðal efnis grein um Kristínu ,,okkar,, Sigurðardóttur í Tjarnarborg og jólasveinana hennar.

Það er afar fjölbreytt efni í Sumarhúsið og Garðurinn, má þar nefna: ýmsikonar ræktun, berja, blóma og grænmetis, uppskriftir, hugmyndir fyrir heimilið, fræðandi greinar um allt á milli himins og jarðar, innlit til fólks og svona mætti lengi telja. Blaðið á 20 ára afmæli á þessu ári. Hér má sjá greinina eftir Auði Ottesen ritstjóra, en fallegar myndir eru í blaðinu af jólasveinunum hennar Stínu, sem teknar voru uppí Hlíðarfjalli þar sem jólasveinarnir voru að herða sig og koma sér í form fyrir komandi vertíð.

Íslensku jólasveinarnir eru hrekkjóttir, og ef ekki er höfð gát á þeim þá eiga þeir til að hnupla, skella hurðum eða standa á gægjum með andlitið fast við gluggann. Þrettán dögum fyrir jól leggja þeir af stað til byggða til að stríða okkur mannfólkinu og gleðja hlýðnu börnin á aðventunni.  Kristín Sigurðardóttir í Tjarnarborg sem starfaði lengi sem skólaliði í Stórutjarnarskóla þekkir karlana vel og miklar annir eru hjá henni í jólasveinasmiðjunni fyrir jólin. Þar býr hún til jólasveina uppábúna í vaðmálsklæðum og skinnskóm ásamt Grýlu og Leppalúða. Karlarnir hennar eru vinsælir safngripir og hefur Kristín vart undan að sníða þeim klæði því farasnið er á þeim frá Tjarnarborg í frímerktum öskjum um allt land og allan heim. Íslensku jólasveinarnir ásamt Leppalúða og Grýlu er heillandi rammíslensk menning sem Jóhannes á Kötlum gerði ódauðlega í vísnakveri sínu um íslensku jólasveinana árið 1932.  Teikningarnar af jólasveinunum í vísnabókinni eru fyrirmynd af klæðum og útliti jólasveina Kristínar.  Ævintýri hennar byrjaði er hún og Ragnheiður Kristjánsdóttir sem þá var kennari við Stórutjarnarskóla bjuggu til karlana þrettán fyrir skemmtun í skólanum 1993.  Í framhaldinu hélt Kristín svo áfram, í byrjun aðeins til gjafa. Nú skipta þeir hundruðum sem hún hefur gefið og selt út um allar jarðir og hafa vakið mikla athygli og eru orðnir víðförlir.

myndir úr Sumarhúsið og Garðurinn: Jónas Reynir Helgason tók myndina af Stínu með Kjötkrók, hinar myndirnar tók Páll Jökull Pétursson.

 

 

 

 

 

 

 

 

Dimmuborgasveinarnir

Grýla kerlingin og faðir jólasveinanna Leppalúði, hafa ekki nokkurn smekk fyrir því að piltarnir líti vel út og hafa þeir lengi verið tötrum klæddir. Kristín aumkaði sig yfir þá og tók þátt í að fríkka upp á jólasveinana sem eiga sér nú bústað í Dimmuborgum í samvinnu  við Snow Magic verkefnið í Mývatnssveit.

„Blessaða karlana vantaði ný föt. Ég og Ragnheiður hönnuðu og saumuðu á þá föt og nú klæðast þeir gömlu íslensku bændafötunum sem þjóðin klæddist á 18-19 öld. Íslensk prjónavoð, ull, skinn og gæru. Tölurnar á klæðunum eru handunnar úr horni, beini eða tré. Litirnir eru líka rammíslenskir, byggðir á íslenskum jurtalitum, segir hún og að það hafi verið ævintýralegt að vinna að verkefninu með Mývetningum og sé stolt að karlarnir séu sómasamlega til fara.

„Íslensku jólasveinarnir eru stoltir og sterkir karlar sem auðvitað vilja vera vel til fara og þeir vilja ekki sjá gerviefni og enn síður ameríska búninginn.“ Íslensku jólasveinarnir eru menningarverðmæti og þakkarvert framtak Kristínar að rækta hana. Sveinarnir hennar eru safngripir og þeir eru ekki síður vel til fara en sveinarnir í Dimmuborgum.

Stína með kransa sem hún gerir úr birki og hægt er að fá hjá henni.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessu til viðbótar má geta þess að núna eru 3 Dimmuborgarjólasveinar staddir á ferðaráðstefnu í Leipzig í Þýskalandi þar sem þeir kynna vetrartengda ferðaþjónustu á Íslandi. En þeir eru alvanir að ferðast bæði innanlands og utan við að kynna Ísland og gera það ætíð með ,,bravör,,  m.a. hafa þeir verið í Finnlandi, Austurríki, Frakklandi, Eistlandi og Japan.

Sumarhúsið og Garðurinn á skemmtilega facebook-síðu, þar er að finna ýmsar flottar hugmyndir.