Jólasmiðja Þekkingarnets Þingeyinga fjallaði í gærkvöldi um jól í öðrum löndum. Kynningin fór fram í Álfasteini á Laugum í húsnæði Urðabrunns. Íbúar í Reykjadal sem koma frá Austurríki, Póllandi og Þýskalandi sögðu frá jólahaldi í sínum heimalöndum, helstu siðum og venjum og hvað borðað er yfir hátíðarnar. Einnig gátu gestir smakkað á jólagóðgæti frá Póllandi, Austurríki og Þýskalandi.

Christina og Maximilian kynntu fyrir gestum hvernig jólahald fer fram í Austurríki og Þýskalandi. Lítill munur er á jólahaldi milli þessara tveggja landa. 6. desember fá öll börn eitthvað gott í skóinn en þau börn sem hafa verið óþekk fá grein í staðinn. Aðra daga fram að jólum fá börn ekki neitt í skóinn. Þau eru í skólanum fram á Þorláksmessu.

Jakub og Olivia frá Póllandi sögðu frá jólahaldi í Póllandi. Það er ekki ósvipað jólahaldi í Austurríki og Þýskalandi. Jólin hefjast þó ekki fyrr en fyrsta stjarnan sést á himni á aðfangadagskvöld. Á öllum heimilum í Póllandi er til siðs að setja smá heytuggu undir borðdúkinn á jólakvöldverðarborðinu og svo er alltaf haft eitt laust sæti við borðið ef einhver ætti ekki í nein hús að venda.

Siðir og venjur í þessum þremur löndum eru ekki svo mjög ólíkir íslenskum jólasiðum á jóladag og annan í jólum. Fjölskyldur hittast og gera vel við sig í mat og drykk.