Jarðskjálftahrinan í Eyjafjarðarál heldur áfram

0
94

Veður.is segir frá því í dag að jarðskjálftahrinan sem hófst á laugardag syðst í Eyjafjarðarál heldur áfram. Í gær, mánudaginn 22. október, mældust allnokkrir skjálftar á tímabilinu frá kl. 1:00 til 8:00 á svæði nokkru suðaustan við þann stað þar sem meginhrinan og 5,6 skjálftinn voru staðsett. Þeir voru því heldur nær Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu.

Kortið sýnir upptök jarðskjálfta á tímabilinu 19. – 20. september (ljósgráir hringir) , 20. – 21. október (rauðir hringir) og 22. – 23. október (skjálftar stærri en 2, grænir hringir). Stærsti skjálftinn, 5,6 að stærð, er táknaður með svartri stjörnu. Blár hringur er dregin utan um skjálftana sem urðu að morgni 22. október og austar en meginþyrpingin. Sveru örvarnar ofarlega á kortinu sýna rekstefnuna og örvarnar við Flateyjarskaga sýna hreyfistefnuna um Húsavíkur-Flateyjarmisgengið. Einnig eru sýnd nokkur önnur misgengi á svæðinu með svörtum línum. Mynd af vedur.is

 

Nægileg spenna til staðar fyrir skjálfta af stærðinni um 6,8

Stærstu skjálftarnir þar, um 3,9 að stærð, urðu klukkan 5:25 og 5:32 í gærmorgun. Í gærkvöld (22. október) kl. 21:16 varð skjálfti af stærðinni 3,5  og í morgun (23. október) klukkan 5:27 mældist skjálfti af stærðinni 4,0  á svæðinu þar sem meginvirknin hefur verið og færðist hún því aftur til vesturs. Skjálftarnir eru hefðbundnir brotaskjálftar á flekaskilum og engin merki sjáanleg um eldvirkni.

Úrvinnsla 5,6 skjálftans sýnir að um siggengisskjálfta er að ræða, sem er einkennandi fyrir sigdal eins og Eyjafjarðarál, en á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu má búast við misgengishreyfingum. Hvorki er hægt að segja fyrir um hve skjálftahrinan vari lengi né útiloka að skjálftar stærri en 4 eigi eftir að verða.

Þessi hrina er við vesturenda Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins og ekki er útilokað að hrinan hafi áhrif á spennu umhverfis misgengið. Gliðnunin sem varð samfara Kröflueldum 1975-1984 varð til þess að spenna minnkaði á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Síðan þá hefur spenna verið að hlaðast upp.  Jarðskorpumælingar (GPS) á síðustu árum benda til þess að nægileg spenna sé til staðar fyrir skjálfta af stærðinni um 6,8 (Metzger o.fl., 2011). Stærstu skjálftar sem vitað er um á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu eru um 7 stig eins og skjálftarnir sem urðu 1755 og 1872.   vedur.is