Jafnvægi í rekstri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands

0
60

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sótti ársfund Heilbrigðisstofnunar Norðurlands sem haldinn var í Hofi á Akureyri í gær. Ráðherra segir ánægjulegt að sjá hve vel hafi tekist til með sameininguna að baki þessari víðfeðmu stofnun og greinilegt að vel sé haldið utan um reksturinn, jafnt faglega og fjárhagslega. Frá þessu segir á vef Velferðarráðaneytisins í dag.

Frá fundinum
Frá ársfundinum

Ársfundurinn er haldinn í lok fyrsta heila rekstrarárs sameinaðrar stofnunar en Heilbrigðisstofnun Norðurlands tók formlega til starfa 1. október 2014 þegar sex heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi sameinuðust. Starfssvæðið nær allt frá Blönduósi í vestri til Þórshafnar í austri og er fjöldi íbúa á svæðinu rúmlega 35.000 manns. Stofnunin er dreifstýrð á þann hátt að ekki eru eiginlegar höfuðstöðvar heldur hafa stjórnendur starfsaðstöðu á þeirri starfsstöð sem hentar og kom fram á fundinum að upplýsingatækni sé lykillinn að því að slíkt skipulag gangi upp.

Á fundinum kom fram að eftir nokkuð þunga fjárhags- og rekstrarstöðu í upphafi, hafi staðan breyst til hins betra og var stofnunin rekin með lítilsháttar rekstrarafgangi árið 2015, eða um 1,1 milljón króna.

Í ávarpi heilbrigðisráðherra ræddi hann um áherslur sínar varðandi eflingu heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Sameiningin í eina stóra heilbrigðisstofnun á Norðurlandi hefði verið til þess fallin að ná fram samlegðaráhrifum, að bæta þjónustuframboð og jafna aðgengi fólks á öllu starfssvæðinu að heilbrigðisþjónustu. Ráðherra rakti meðal annars hvernig framlög hafi verið aukin til tiltekinna verkefna í því skyni að styrkja þjónustu stofnunarinnar, meðal annars með auknu fé fyrir námsstöður í heilsugæsluhjúkrun og heimilislækningum, framlögum til að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum og auka framboð sálfræðiþjónustu o.fl.

Ráðherra segist sannfærður um að sameining heilbrigðisstofnananna í eina öfluga stofnun á Norðurlandi hafi verið rétt og góð ákvörðun: „Góður andi á ársfundinum hér í Hofi styrkir þá trú mína þar sem hér kemur saman fólk af öllu starfssvæði stofnunarinnar. Fagleg og fjárhagsleg stjórnun stofnunarinnar virðist styrk og loks finnst mér til eftirbreytni hvernig stofnunin er dreifstýrð og án skilgreindrar höfuðstöðvar.“