Jafnrétti til búsetu

0
99

Sumir kunna að halda því fram að ódýrast sé að setja alla þjónustu hins opinbera niður á einum stað þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. En flestir vita nú betur og gera sér grein fyrir því að hagkvæmast er fyrir skattgreiðendur að skattar þeirra renni til þess að skapa fjölbreytt störf og efla þjónustu í heimabyggð. Að þessu sögðu er því mikilvægt að benda á að það er hlutverk stjórnvalda að skapa rammann en núna virðast þau helst vilja drepa niður öll tækifæri sem gefast.

Anna Kolbrún Árnadóttir

 

Áherslur þeirra einkennast m.a. að óhóflegri skattlagningu og flækjustig skattamála er þvílíkt að ætla mætti að þau hefðu í raun ekki hugmynd um afleiðingarnar. En þær geta verið umtalsverðar og ef tækifærin eru ekki nýtt getur það endað með því að öll þjónusta endar á einum stað og á því svæði sem flestir búa og ég er ekki viss um að það sé óskastaðan.

 

 

Öryggi fólks er ógnað.

Stórfelldur niðurskurður hefur orðið á velferðar- og heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega á landsbyggðinni, deildum sjúkrahúsa hefur verið lokað og starfsfólki sagt upp störfum. Hinir sem þó héldu vinnunni finna fyrir auknu álagi. Margir sjúklingar hafa vegna þessa þurft að sækja heilbrigðisþjónustu um allt of langan veg og alvarleg veikindi þola enga bið. Það er hart að þurfa að benda á að þetta snýst um líf eða dauða.

Þetta gerist á sama tíma og uppi er áform um að reisa risavaxna byggingu undir Landsspítala, á sama tíma og fólk getur ekki fengið lögbundna grunnþjónustu í heimabyggð og á sama tíma fást ekki læknar til starfa á landsbyggðinni.

Uppbygging allsstaðar.

Stjórnvöld virðast hafa einsett sér að stuðla að uppbyggingu iðnaðar á suðvesturhorninu. Vera má að það sé gott og blessað en önnur landssvæði mega ekki sitja á hakanum. Verðmætasköpun verður að aukast allsstaðar svo hægt sé að halda uppi þjónustu sem þörf er á í nútíma samfélagi. Landsbyggðin verður að geta nýtt sóknarmöguleika sína. Vel er hægt að halda uppi iðnaði á landsbyggðinni og ekki má gleyma því að hvert svæði hefur sína möguleika sem vel geta nýst ef rétt er staðið að málum.

Tækifærin eru til staðar.

Þetta hangir nefnilega allt saman og tækifærin eru til staðar. Allt sem þarf eru markvissar aðgerðir. Umhverfið verður að vera sem jákvæðast þannig að fyrirtæki sjái sér hag í því að starfa allsstaðar á landinu. Það vitum við sem búum á landsbyggðinni. Hagsmunir eiga að geta farið saman og þar sem fyrirtæki fá möguleika til þess að þrífast er nærri því borðleggjandi að það ýti frekar undir að sú grunnþjónusta sem ætti að vera sjálfsögð verður til hvar sem er á landinu. Fjölskyldur eiga að sjá sér hag í því að búa áfram á þeim stöðum sem þær óska og það er stjórnvalda að sjá til þess að það sé mögulegt. En til þess að það geti orðið að veruleika þarf að taka upp skynsemisstefnu og viðurkenna að íslenskt samfélag er samvinnuverkefni. Hagsmunir allra eiga að geta farið saman þannig að úr verði réttlátt og gott samfélag.

Horfum fram á veginn og nýtum tækifærin.

Anna Kolbrún Árnadóttir.