Íslandsmeistaramót í eldsmíði var haldið um s.l. helgi á Akranesi. Þar eignuðumst við Þingeyingar íslandsmeistara, það var Gunnar Benedikt Þór Gunnarsson frá Hálsi í Kinn.

Gunnar hefur stundað eldsmíði síðan árið 2005 þegar hann fór í fyrsta sinn á námskeið hjá Therese Engdahl sem haldið var á Hrafnagili. Síðan hefur hann farið á nokkur námskeið, meðal annars þrjú til viðbótar hjá henni, þegar hún hefur komið til landsins. Hann hefur búið sér til aðstöðu heima í sveitinni til að smíða, en býr núna á Akureyri. Gunnar er vel þekktur hagleiksmaður, hann rennir í tré og sker út, auk þess sem hann kveikir öðru hverju upp í aflinum. Hann smíðar líka stundum hjá Beate Stormo í Eyjafirði, honum finnst þó best að vera einn við vinnu sína. Aðspurður um það hvers vegna, hann haldi að sigurinn hafi verið hans á þessu móti, segir Gunnar að hann einfaldlega vandi sig við það sem hann er að gera hverju sinni.

Gunnar keppti við 8 aðra eldsmiði, sem allir smíðuðu lamir, til þess höfðu þeir fjórar klukkustundir.
Í ágúst verður norðurlandameistaramótið í eldsmíði haldið á Safnasvæðinu á Akranesi, það verður spennandi að sjá hvað gerist þar.
myndirnar tók: Lúðvík Karlsson.