Ískrossið í Mývatnssveit um síðustu helgi heppnaðist gríðarlega vel í frábæru veðri. Lagðar voru tvær brautir, annars vegar á Stakhólstjörn og hins vegar við Fuglasafnið í Neslöndum. Ísinn gat ekki verið betri og í hádegishléinu á milli umferða buðu strákarinir í Team Ice-andi uppá grillaðar pylsur.

Eftir mótið skelltu menn sér í Jarðböðin og síðan í Pizzaveislu í boði Akstursíþróttafélags Mývatnssveitar. Íslandsmeistari í opnum flokki varð Jón Ásgeir Þorláksson frá Garði í Mývatnssveit, en Íslandsmeistari í vetrardekkjaflokki varð Bjarni Hauksson frá Kambsstöðum í Ljósavatnsskarði.

Ekki náðist nægur fjöldi í Kvennaflokk en stelpurnar tvær Signý Stefánsdóttir og Ásdís Elva Kjartansdóttir ákváðu að keppa bara við strákana í vetrardekkjaflokki og gerðu þeim heldur betur erfitt fyrir.
