Innbrotstilraun í Dalakofanum í nótt

0
106

Gerð var tilraun til innbrots í Dalakofann á Laugum í nótt. Viðvörunarkerfið í Dalakofanum fór í gang kl: hálf tvö í nótt og fóru eigendur Dalakofans strax á vettvang ásamt lögreglunni á Húsavík til að athuga málið. Ekki sást til mannaferða við Dalakofann þá, en líklega hefur þjófurinn forðað sér á hlaupum þegar viðvörunarkerfið fór í gang.

Dalakofinn á Laugum.
Dalakofinn á Laugum.

Að sögn Haraldar Bóassonar eigenda Dalakofans hafði þjófinum tekist að spenna upp veggviftu sem er að vestaverðu á lager Dalakofans og sennilega ætlað að troða sér inn í gegnum viftugatið, sem er aðeins um 30 cm í þvermál. Taldi Haraldur það mikla bjartsýni hjá þjófnum að reyna að komast þar í gegn. Þjófnum mistókst því að komast inn, en eyðilagði viftuna sem datt niður á lagergólfið þegar hann spennti hana upp utan frá.

Fingraför fundust á vettvangi auk þess sem myndir náðust af grumsamlegum manni úr einni af eftirlitsmyndavélum Dalakofans aðeins þremur mínútum áður en viðvörunarkerfið fór í gang. Myndirnar eru þó ekki nægilega skýrar til þess að hægt sé að bera kennsl á viðkomandi, en hann er í yngri kantinum, frekar hávaxinn og grannur.

Þetta er önnur innbrotstilraunin í þessari viku á Laugum, en eins og sagt var frá hér á 641.is í vikunni var gerð tilraun til þjófnaðar í íþróttahúsinu sl. þriðjudag, sem mistókst líkt og í Dalakofanum í nótt.

Lögreglan á Húsavík fer með rannsókn beggja þessara mála og ef einhverjir hafa orðið varir við grunsamlegar mannaferðir við Dalakofann um kl. hálf tvö sl. nótt beðnir um að láta lögregluna á Húsavík vita af því.