Ingimundur Gamli

0
229

Við hjónin þjónuðum saman við svokallaða Paramessu, þar sem umfjöllunarefnið var sambúð, hjónabandið, samskipti kynjanna, ástin og lífið.  Þá áttum við þetta samtal:

Bolli: Ég var staddur í Stórutjarnaskóla í nýliðinni viku á samkomu eldri borgara og þar barst mér í hendur merkileg bók, lítil og þunn.  Hún heitir Leiðarvísir í ástamálum og er eftir mann er ber nafnið Ingimundur Gamli. Fátt fann ég um þennan höfund annað en það að hann var Sigurðsson.  Þessi ágæti leiðarvísir hans er sérstaklega fyrir karlmenn, gefinn út árið 1922.

Bolli Pétur Bollason

Sunna: Ég gluggaði í þetta rit sem er augljóslega barn síns tíma.  Það vakti jú athygli mína hvað þessi höfundur hafði lagt sig fram um að setja sig inn í hugarheim kvenna á þessum tímum þegar það var fremur óalgengt að ég tel.  En þó læt ég það fylgja að hann hefur ákveðnar hugmyndir um konur, sem væru sannarlega ekki samþykktar í dag.

 

Bolli:  Það má reyndar segja honum Ingimundi Gamla til hróss að hann skuli láta sig þetta mál varða þarna árið 1922, en fram kemur í formála bókarinnar að hann byggi ritið á eigin reynslu og annarra og markmið skrifa hans séu þau að koma í veg fyrir frekari hjónaskilnaði með þessum ráðum sínum.

Sunna: Færu karlmenn eftir þessu riti nú á dögum myndi ég ætla að skilnaðartíðni myndi hækka allverulega.

Bolli:  Hvað áttu við með því Sunna mín?

Sunna:  Tökum dæmi:  Fyrrnefndur Ingimundur segir á einum stað:  „Ef unnusta þín kann eigi að búa til mat, sauma léreftsfatnað og því um líkt, þá skaltu láta hana læra það áður en þú gengur að eiga hana.  Henni verða heimilisstörfin þá miklu léttari og fara þau betur úr hendi.“  Ég skal segja þér það Bolli minn að hefðir þú sent mig á saumanámskeið áður en við gengum í hjónaband, þá stæði ég ekki hér.

Bolli:  Tja, mikið er ég feginn að hafa ekki fengið þá þennan leiðarvísir í hendur fyrr en nú.  En eitthvað má samt læra af þessu riti fortíðar?  Gefur það ekki vissar kveikjur að umræðu um sambúð og hjónaband nútímans?  Þarna eru hugtök, sem eru tekin fyrir og Ingimundur telur afar mikilvæg í samskiptum para og hjóna.

Sunna: Jú, ég tók eftir að hann leggur áherslu á kurteisi, íþróttir, dans, hreinlæti, klæðaburð, menntun, mannorð, viðmót og framkomu.

Bolli:  Varðandi kurteisina þá leggur hann fram 10 boðorð þess efnis hvernig þú eigir að koma fram við konur, t.d. taka að ofan, hneigja þig, láta hana ganga á undan þér, rétta henni hlut sem hún missir niður.  Eru þetta ekki atriði Sunna sem skipta máli í dag?

Sunna:  Kurteisi er alltaf góð og gild í formi þess að sýna hvort öðru og umhverfi sínu virðingu, en ég viðurkenni það að ef þú værir sífellt að hneigja þig fyrir mér, taka að ofan, láta mig ganga á undan þér og rétta mér allt sem ég missi niður, þá myndi ég halda að þú hefðir gert eitthvað af þér.

Bolli:  Já, það kynni að líta undarlega út, en hvað með íþróttir og dans, það hljóta að vera þættir sem efla samskipti para og leiða til frekari gæða í sambúð og hjónabandi, ekki satt?

Sunna:  Ingimundur Gamli nefnir að konan sé veikbyggð og viti það vel, þess vegna ætlist hún til að karlmaðurinn sé sterkari, og því gott fyrir hann að iðka leikfimi, glímur og sund.  Hann nefnir einnig að nauðsynlegt sé fyrir karlmann að kunna að dansa enda líti konur upp til þess manns sem sé góður dansmaður.

Bolli:  Ef að þetta er satt þá hefur þú verið nokkuð laus undan því að sjá þetta sem brýna nauðsyn er þú hittir mig á skólaballi í desember ´98, þar sem ég dansaði handadansinn undir ljúfum tónum hljómsveitarinnar Skítamórals.

Sunna:  Að sama skapi tel ég það ekki brýnt að þú leggir stund á glímu til að viðhalda líkamlegum yfirburðum gagnvart veikbyggðri konu þinni.  En við búum bæði yfir okkar styrkleikum og veikleikum.

Bolli:  En þetta að ritið sé barns síns tíma hlýtur þá einkum að birtast í því að þarna er verið að aðgreina kynin talsvert og leggja áherslu á það sem er ólíkt og skilur okkur sundur.  Vafalaust hefur þessi gamli og rótgróni hugsunarháttur haft veruleg áhrif á launamun kynjanna á vinnumarkaði og við eru svo sem enn að fást við það, því miður.  Það er því mikilvægt að setja sig inn í eldri hugsunarhátt til þess að átta sig betur á stöðunni í dag.

Sunna:  Það er mikið til í því, sú hugsun að kynin séu gagnstæð hefur haft áhrif á svo margt og mikið í tilvist okkar, ekki bara á hjónabandið heldur á svo mörg önnur svið í lífinu.  Þessi hugsun var t.d. ríkjandi og er enn þegar fjallað er um hjónaband samkynhneigðra og hafa verið helstu rökin gegn þeim ráðahag.  Í stað þess eigum við að líta á innihald fremur en form, það sem við sem einstaklingar höfum fram að færa þegar kemur að sambúð eða hjónabandi.  Þar er það kærleikurinn, sem er framar öllu, númer eitt, tvö og þrjú.

Bolli:  Þá gildir víst einu hvort við erum gagnkynhneigð eða samkynhneigð, öll höfum við þörf til að elska og tjá ást okkar og þá er form og formfesta aukaatriði. Í dag viðurkennum fjölbreytileika í sambúðarformum, fólk kýs að vera í hjónabandi, fjarbúð, sambúð, einbúð, samsettu fjölskyldulífi, allt er það að mörgu leyti val, sem er orðið nokkuð viðurkennt. Það gengur upp af því að við viljum lifa sem farsælar og hamingjusamar manneskjur, það er vissulega vilji Guðs að við séum á þeim stað, þar sem okkur líður vel, þar sem við erum elskuð og fáum tækifæri til að elska.

Sunna:  Þó að við höfum tekið þetta rit Ingimundar Gamla með örlitlu grínívafi hér í upphafi, þá var það ekki til að gera lítið úr því riti.  Það er heimild um hugsunarhátt ákveðins tíma og tíðaranda, að sama skapi er margt í Biblíunni heimild um hugsunarhátt og tíðaranda fortíðar.  Við verðum að kunna að greina þar á milli hvað við tökum með okkur inn í framtíðina og hvað við skiljum eftir sem arfleifð hugsunarháttar, sem á ekki lengur við.  Það er m.a. verkefni sem Guð leggur okkur á herðar.  Ég kýs að fylgja því þegar Jesús kveður lærisveina sína með þessum orðum:  „Nýtt boðorð gef ég yður að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.“

Bolli:  Kirkjunnar er að umfaðma og taka við öllum, en það sem hefur staðið henni fyrir þrifum hvað snertir viðurkenningu á útvíkkun hjónabandsskilningsins er misjöfn túlkun á þeim arfi er Biblían birtir.  Bókstafstrú og öfgahyggja á engan veginn við í þessu samhengi og er í raun ekkert annað en duldir fordómar þar sem orð Guðs er afskræmt.

Sunna:  Við erum öll velkomin að borði Drottins af því að Jesús boðaði veruleika, sem er einn og óskiptur, hann skipti veruleikanum ekki upp í andstæður eins og við sjáum oft í umræðum um kynin, Jesús afmáir öll mörk sem eru á milli okkar, því í ríki Guðs erum við eitt í Jesú Kristi.

Bolli:  Eins og við lesum í Galatabréfinu:  „Hér er hvorki gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona.  Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“

Sunna:  En ég vil ekki þvert á móti vanmeta Ingimund Gamla, þetta hérna er t.a.m. ómetanlegt þegar hann gefur þér ráð Bolli minn hvernig þú átt að biðja þér konu og ég reikna nú fastlega með því að hér inni sé einhver, sem eigi eftir að gera það, þá skulum við hafa eftirfarandi í huga:  „Vertu ekki feiminn og stamaðu ekki, en vertu alvarlegur og hátíðlegur á svip og í máli.  Vertu ekki með neinar óþarfa málalengingar eða tvíræðar setningar, en segðu það sem þér býr í brjósti með fáum og vel völdum orðum.“

Bolli:  Ég segi nú bara amen á eftir þessu.  Í Jesú nafni.  Amen.

Bolli Pétur Bollason