Íbúafundur vegna búfjársamþykktar

0
101

Á 113. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, sem haldinn var 15 nóvember sl. voru drög að samþykkt um búfjárhald í Þingeyjarsveit lögð fram til kynningar. Á 114. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, sem haldinn var 29. nóvember sl. höfðu borist tvær athugasemdir við drögin.

Athugasemd barst frá Daða Lange f.h. Landgræðslu ríkisins.  Daði gerir athugasemd við að fyrri samþykkt um lausagöngu stórgripa í Aðaldal verði felld úr gildi og leggur til að lausaganga stórgripa verði bönnuð í Þingeyjarsveit. Daði vísar til úttektar Landgræðslunnar og Búgarðs á Þegjandadal þann 17. nóvember árið 2011. Daði benti einnig á að á sama tíma og verið er að ræða í þjóðfélaginu að banna lausagöngu sauðfjár, þá ætlar Þingeyjarsveit að fella úr gildi lausagöngubann stórgripa í Aðaldal.

Einnig barst athugasemd frá meirihluta landeigenda og/eða ábúenda á jörðum sem land eiga að Múlaheiði, Þegjandadal og Þorgerðafjalli í Aðaldal. Þeir mótmæla afnámi lausagöngubanns (væntanlega átt við stórgripi) í Aðaldal og vísa í mat Landgræðslunnar frá því í fyrra. Einnig vill hluti landeigenda og/eða ábúenda banna lausagöngu alls búpenings samkvæmt skilgreiningu á lausagöngu, þ.e. að eigandi beri ábyrgð á sínum búpeningi.

Árni Pétur Hilmarsson bar upp tillögu á fundinum um að haldinn verði íbúafundur og til hans verði boðaðir fulltrúar Bændasamtakanna, Landgræðslu ríkisins og tryggingarfélaga. Á fundinum verði farið yfir hvað felst í lausagöngu búfjár og hvað felst í banni við lausagöngu búfjár. Gefinn verði kostur á umræðum og fyrirspurnum. Tillagan var samþykkt og var sveitarstjóra falið að undirbúa fundinn.

Atvinnumálanefnd Þingeyjarsveitar skilaði af sér drögum að búfjársamþykkt í nóvember sl. Búnaðarfélög í Þingeyjarsveit voru beðin um að skila inn athugasemdum vegna búfjársamþykktarinnar sl. sumar og lögðust þau öll gegn því að komið yrði á lausagöngbanni stórgripa í Þingeyjarsveit.

Lausaganga búfjár er ekki bönnuð í Þingeyjarsveit, en lausaganga stórgripa er hinsvegar bönnuð í gamla Aðaldælahreppi samkvæmt núgildandi búfjársamþykkt í Aðaldal. Lausaganga búfjár er ekki bönnuð í þeim hreppum sem mynduðu Þingeyjarsveit áður en gamli Aðaldælahreppur sameinaðist Þingeyjarsveit á sínum tíma.

Íbúafundurinn verður haldinn eftir áramótin.

Sjá má drög að búfjársamþykktinni hér