Í tilefni afneitunar

0
114

Benedikt Sigurðarson skrifar grein á þessum vettvangi sem hann kallar „Í tilefni af áróðursmynd Herdísar Þorvaldsdóttur“. Í henni kýs hann einhverra hluta vegna að láta nokkur vel valin orð í garð skógræktar fljóta með, sem ástæða er til að athuga nánar.

Þröstur Eysteinsson

Hann nefnir eldgos og vont veður til sögunnar sem helstu sökudólga í gróðureyðingu, en það er einfaldlega ekki rétt og þeir sem halda slíku fram eiga ekki að saka aðra um að „halla máli“. Mýmargar rannsóknir bæði hér á landi og erlendis sýna að eftir rask á borð við öskufall, flóð eða fellibilji eru skógar (og annar gróður) fljótir að nema land á ný fái þeir til þess frið. Eftir skógarhögg í birkiskógi vex skógurinn strax upp aftur af teinungi nema eitthvað komi í veg fyrir það. Staðbundið rask hefur alltaf verið þáttur í vistkerfum landsins og fyrir landnám virðist slíkt rask einnig hafa verið tímabundið (skógurinn kom alltaf aftur). Það sem breyttist við landnám var að raskið hætti að vera tímabundið því beit búfjár kom í veg fyrir endurnýjun skógarins. Auk þess komu til nýjar tegundir rasks við það að menn brenndu kjarrlendi til að skapa hentugara beitiland og menn hjuggu skóga til eldiviðar og kolagerðar. Það rask veitti síðan búpeningi greiðari aðgang að uppvaxandi teinungi og skógarnir hættu með tímanum að geta endurnýjað sig. Það sem breyttist við landnám var ekki það að veður varð allt í einu vont eða eldfjöll tóku allt í einu til við að gjósa. Það sem breyttist var það að beit kom í veg fyrir endurnýjun skóga og kjarrgróðurs í kjölfar rasks eða nýtingar.
Hófsamar áætlanir gera ráð fyrir að 2,6 milljónir hektara skóglendis hafi eyðst frá landnámi, eða um 95% af skógunum sem hér voru. Það verður ekki skýrt með staðbundnu raski af völdum  veðurs eða eldgosa. Það verður ekki heldur skýrt með loftslagsbreytingum því kólnandi veðurfar hefur fyrst og fremst áhrif við skógar- eða gróðurmörk. Hluta skógareyðingar í 500-600 m hæð og gróðureyðingar í 700-800 m hæð má hugsanlega skýra með með kolnandi loftslagi á miðöldum en ekki skógleysi á láglendi og því síður láglendisauðnir.

Benedikt bendir á þann „glæp“ Skógræktar ríkisins að hafa gróðursett barrtré í birkiskóga og telur hana vera „stórvirkustu eyðileggingu skóga af mannavöldum“. Mælingar á flatarmáli þeirra gróðursetninga sýna að um er að ræða 4000 ha á landinu öllu, mest af því í landi þar sem skv. gömlum myndum voru kjarrbrúskar á strjálingi en ekki skógur. Víða þar sem barrtré vaxa innan um birki í dag er það vegna þess að birkið óx upp með barrtrjánum en ekki af því að birkið var þar þétt fyrir. Vissulega eru til dæmi um það að barrtré voru gróðursett í vöxtulegan birkiskóg eins og Benedikt bendir á, en á þeim svæðum hefur birki einnig breiðst út innan girðinganna. Birkiskógur þekur nú helmingi meira flatarmál innan gömlu girðinganna á Vöglum og Hallormsstað en hann gerði þegar girt var fyrir meira en öld síðan og það þrátt fyrir umtalsverða gróðursetningu barrtrjáa á báðum stöðum.
Skógræktin hefur endurheimt miklu meiri birkiskóg en sem nemur þeim sem var breytt í barrskóg.

Samanburðurinn við skógareyðingu sem rekja má til beitar er hreinlega kjánalegur: Skógræktin – 4 þúsund ha, beit – 2,6 milljónir ha. Auk þess hefur Skógræktin séð að sér og er löngu hætt að planta inn í birkiskóga. Hefur sauðfjárræktin séð að sér og hætt að beita blásnar auðnir og annað rofið land? Sumir sauðfjárbændur hafa gert það, skipulagt beit, grætt upp land til beitar og því ber að fagna. En margir kjósa frekar afneitun, ekki síst þeir sem eru ekki sauðfjárbændur en telja sig vera að verja einhverja ímyndaða og gjörsamlega úrelta hagsmuni.

Svo er það þetta með skipulagslausa, ríkisstyrkta skógrækt sem Benedikt fer nokkrum orðum um. Hvar er slík skógrækt stunduð? Ekki veit ég um nein dæmi þess og fylgist þó nokkuð vel með í skógrækt. Tilfellið er að öll ríkisstyrkt skógrækt er vel skipulögð, háð sérstökum samningum og ræktunaráætlunum þar sem tillit er tekið til umhverfis, fornleifa, hagrænna þátta, landslagshönnunar o.m.fl. Er sama hægt að segja um sauðfjárrækt?

Ég vil gera athugasemd við það að Benedikt setur orðið „timburframleiðslu“ innan gæsalappa, væntanlega til að gera lítið úr henni. Skógrækt hér á landi er vissulega ung að árum og smá í sniðum en óþarfi er að ráðast á lítilmagnan á þennan hátt. Sala timburs úr íslenskum skógum skilar u.þ.b. kr 100 milljónum árlega í brúttótekjur. Þetta er vissulega ekki há upphæð en hún fer vaxandi ár frá ári. Að því mun koma að skógrækt skili til baka til samfélagsins margfallt hærri upphæðum en sem nemur fjárfestingu ríkisins í uppbyggingu auðlindarinnar. Margir þingeyskir bændur eru í skógrækt til timburframleiðslu og það gengur vel, skógarnir vaxa og dafna. Þetta er ný vídd í landnýtingu sem skapa mun atvinnu og tekjur í sveitum landsins í framtíðinni.

Í mínum huga eru skilaboðin í mynd Herdísar ekki þau að kindur séu vondar eða sauðfjárbændur óalandi og óferjandi, heldur miklu frekar þau að ef við ætlum að lifa hér áfram þarf landið að vera í því ástandi að það geti framfleytt okkur. Við nýtum landið og munum gera það áfram, til margskonar ræktunar, ferðamennsku, orkuöflunar, beitar o.m.fl. Á hverjum tíma þurfum við að vera vakandi fyrir því sem betur mætti fara í þeim efnum svo komandi kynslóðir geti líka notið þess að búa hér. Skógleysi og gróðureyðing eru hlutir sem þarf að laga og hluti af lausninni tengist skipulagi beitarmála. Þannig er það bara og afneitun á ástandinu eða tilraunir til að koma sökinni á aðra hafa ekkert uppá sig.

Þröstur Eysteinsson
Sviðsstjóri Þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins og Þingeyingur