Í tilefni af áróðursmynd Herdísar Þorvaldsdóttur

0
182

og með vísan til hófsamra viðbragða Landssamtaka sauðfjárbænda.

Sorglegur ósiður þeirra sem „harkast mest“ er að þeir víla ekki fyrir sér „að halla máli“ . . . . svo vægasta orðalag sé notað um framsetningu Herdísar í myndinni.  Því miður fellur hún í þá gildru að vinna út frá ástandi og tölulegum staðreyndum sem eru löngu úreltar . . . meira en 20 ára etv.  – og sumt meira en umdeilt í fræðiheiminum.

Benedikt Sigurðarson

Fjöldi sauðfjár á afréttum og beitartími hefur verið skorinn niður um  nærri 50% frá 1980 og staðreyndir tala um að gróðurfar á hálendi (einkum NV-landi) hefur stórlega batnað á sama tíma.   Veðurfarið hefur auðvitað haft sitt að segja en væntanlega hafa eldgos og langstæðir ísavetur verið langsamlega mikilvirkast í að breyta og spilla gróðurfarinu.  Árið 1104 eyddi Heklugos allri byggð í Þjórsárdal – – – Móðuharðindin skildu hálendi Sunnanlands eftir þakið í ösku (en jafnframt fjárlaust) og ísavetur síðustu árin á 18.öld höfðu sitt að segja.    Einstök stórviðri eða „fellibyljir“ (líkt og geysaði í september sl.)  hafa brotið niður og eyðilagt skóga á Norðurlandi og væntanlega víðar – en stórvirkasta eyðilegging skóga af mannavöldum – hefur nú líklega verið sá umhverfisglæpur Skógræktar ríkisins að höggva niður vöxtulegustu birkiskóga landsins og planta í staðinn barrviðum til „timburframleiðslu“ . . .   (auk kola- og húsagerðar fyrri alda).  Bendi á Hallormsstaðaskóg, Vaglaskóg og Ystafellsskóg . . . Verst er auðvitað að menn notuðu opinbert fjármagn til að að stunda þessa skógarhöggs vitleysu.

Sjálfur er ég talsmaður skógræktar  til landbóta og uppgræðslu – – en algerlega mótfallinn því að „skipulagslaus“ plöntun barrviða sé framkvæmd með opinberum styrkjum og án skilyrðinga.

Jafnframt er ég talsmaður hófsamrar nýtingar úthaga, heiðarlanda og afrétta í óbyggðum til beitar sauðfjár og hrossa.

Afréttarhugtakið á Íslandi hefur lagt grunn að almennum nýtingarheimildum og umgengni um hálendi, heiðar og öræfi – og sorglegt að heyra og sjá menntað fólk og skynsamt snúa út úr því hugtaki og vanvirða þann almannarétt sem því fylgir.  Þjóðlendulögin lögðu grunn að ríkisvæðingu og mögulegri einkavæðingu  en skertu um leið almannarétt og afnámu virkni afréttarhugtaksins og almenninga í löggjöf og nýtingu.   Illu heilli . Verst er þó að með öfgum og illsku og öfugsnúningi (útúrsnúningi) er spillt fyrir góðviljuðu samtali milli landnýtingar og verndar og reynt að efna til viðvarandi átaka milli dreifbýlis og þéttbýlis.   Slíkt er illt verk og óþarft.

Þess vegna er ég ánægður með hófsamt svar Landssambands sauðfjárbænda við þessum illskeytta áróðri sem einstrengingin ber á borð.

Benedikt Sigurðarson.