Bjarni Sigurður Aðalgeirsson bóndi á Mánárbakka á Tjörnesi var á ferðinni í bíl snemma í morgun þegar hann rakst á hvítan ref við veginn skammt frá Mánárbakka. Refurinn var spakur mjög og náði Bjarni að fylgjast með h0num í dágóða stund og “skaut” svo Bjarni meðfylgjandi mynd á refinn.

Venjulega eru refir styggir og lítt gefnir fyrir athygli manna og forða sér hið snarasta þegar þeir verða varir mannaferða. Í spjalli við 641.is í dag taldi Bjarni líklegt að um væri að ræða ungt dýr sem ekki kynni að hræðast manninn eða hans farartæki. Hann hefði sennilega verði á leið niður í fjöru í ætisleit þegar Bjarni varð á vegi hans. Refurinn forðaði sér þó þegar stór og hávaðasamur jeppi keyrði þarf hjá skömmu síðar og hvarf eitthvað út í buskann.