Hverfjall heitir Hverfjall – Samkvæmt Umhverfisstofnun

0
221

Svo virðist sem Umhverfisstofnun hafi ákveðið nafngift á fjalli einu í Mývatnssveit, sem Mývetningar hafa deilt lengi um hvað heiti. Búið er að setja upp áberandi skilti fyrir ferðamenn þar sem nafnið á fjallinu er áletrað á með stórum stöfum. Fjallið sem um ræðir er auðvitað Hverfjall sem sumir vilja kalla Hverfell.

Hverfjall. Mynd: Björn Þorláksson
Hverfjall. Mynd: Björn Þorláksson

Björn Þorláksson, einn landeigenda í Vogum í Mývatnssveit, segist í spjalli við 641.is vera mjög ánægður með niðurstöðuna, enda hafi faðir hans, Þorlákur Jónasson, heitinn, hvergi unað sér hvíldar í að endurheimta rétt nafn á heiðursfjall Vogunga. “Slíkt náttúruundur geti aldrei talist fell, mikil og merk fyrirbrigði eigi stærri orð skilið en svo.”

641.is er ekki kunnugt um hvort Umhverfisstofnun geti ákveðið eða skorið úr um nafngiftir á fjöllum á Íslandi og ekki heldur hvort þetta sé gert í sátt við alla í Mývatnsveit.

Í úrskurður örnefnanefndar, frá 12. maí 1999, kemur fram að setja skuli örnefnið Hverfjall á ný á landakort sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands en við úrskurðarorðið bætist að jafnframt skuli setja innan sviga örnefnið Hverfell ásamt með örnefninu Hverfjall.