Hver hlustar ?

0
82

Fréttir bárust af því í vikunni að íbúar í litlu sveitarfélagi á landsbyggðinni mættu vera viðbúnir því að vera innilokaðir næstu þrjá mánuði. Á sama tíma fáum við fréttir af því að efla þurfi komu ferðamanna yfir vetrartímann en aldrei hafa jafn margir ferðamenn heimsótt Norðaustulandið eins og nú í vetur.

Anna Kolbrún Árnadóttir

 

Einnig má heyra að fyrirtæki á landsbyggðinni óttast það að þau geti ekki komið afurðum frá sér vegna ófærðar. Allsstaðar í samfélaginu má því segja að krafan um betri samgöngur sé hávær, spurningin er, hver hlustar?

Hin upprunalega merking orðsins “jafnrétti” felur í sér að allir hafi sama rétt og sömu reglur gildi fyrir alla.

 

Áður fyrr giltu ekki sömu  reglur fyrir alla og þá var krafan sú að fólk af lægri stéttum hefði sömu pólitísku og borgaralegu réttindi og fólk af efri stéttum. Nú hafa allir fullorðnir menn kosningarétt og eiga því að vera jafnir fyrir lögum og þar af leiðandi að njóta sömu réttinda.

Þegar rætt er um jafnrétti óháð búsetu er átt við jafnan rétt til einhverra gæða eða einhverrar þjónustu sem kostuð er af almannafé og nýtist mönnum til að vaxa og dafna. Þar sem jafn réttur þýðir að reglurnar sem gilda um úthlutun þessara gæða séu álíka hagstæðar og að allir njóti virðingar og geti borið höfuðið hátt.

Á vef velferðarráðuneytisins má finna skýringu á hugtakinu grunnþjónusta en hún er í fyrsta lagi lögbundin þjónusta og í öðru lagi ákveðið þjónustustig lögbundinnar þjónustu sem hefð hefur skapast um og í þriðja lagi ólögbundin þjónusta sem einstaklingar með sérþarfir vegna fötlunar eða heilsubrests þurfa á að halda við athafnir daglegs lífs til að vera virkir í samfélaginu.

Skyldur sveitarfélaga eru miklar og þau þurfa nú sem aldrei fyrr að vera vakandi yfir áhrifum jafnréttis á búsetu og standa mörg hver frammi fyrir frekari fólksfækkun vegna þess að íbúar hafa ekki kost á þeirri grunnþjónustu eða eðlilegum tækifærum til framfærslu sem ætti að standa öllum íbúum landsins til boða og það óháð búsetu.

Þessi sömu sveitarfélög gera sér grein fyrir að skapa þarf forsendur fyrir fjölbreytt atvinnulíf en það tekst aðeins með samvinnu stjórnvalda. Góðar og öruggar samgöngur eru forsendur þess.

Nú verða stjórnvöld að fara að hlusta!

Anna Kolbrún Árnadóttir, býður sig fram í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.