Hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík taka höndum saman

0
90

Ferðaþjónustufyrirtæki á Húsavík hafa tekið höndum saman um markaðssetningu á staðnum sem höfuðstaðs hvalaskoðunar á Íslandi. Búið hefur verið til nýtt vörumerki og á næstu vikum verður átakinu fylgt eftir með kynningarefni. Hvalaskoðunarfyrirtækin þrjú hafa verið í mikilli samkeppni undanfarin ár en telja forsvarsmenn þeirra að samstaða og samvinna skili mun fleiri gestum í bæinn.

1398806145_husavik-merki

Frá því hvalaskoðun hófst á Húsavík 1994 hefur ferðaþjónusta byggst upp að miklu leiti í kringum hvalaskoðun. Flestir sem hafa heyrt af eða komið til Húsavíkur tengja bæinn við hvalaskoðun. Að hafa skapað þá ímynd er ómetanlegt fyrir ferðaþjónustuna, verslun og aðra þjónustu á Húsavík.

Til að styðja þá fullyrðingu sem er að finna í merkinu má vísa til þess að á Húsavík eru þrjú fyrirtæki sem gera út á hvalaskoðun, öll með sínum hætti. Þá er á Húsavík eina Hvalasafn landsins auk þess sem Rannsóknasetur Háskóla Íslands er á Húsavík þar sem stundaðar eru rannsóknir á hvölum.

Þá er rétt að geta þess að í hvalaskoðunarferðum á Skjálfanda eru hvað mestar líkur á að sjá stórhveli eins og hnúfubak og oft má sjá steypireyðar.

“Síðastliðið sumar skapaði hvalamenning á Húsavík alls 143 störf í bænum. Eru þá aðeins taldir þeir sem vinna hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum, hvalasafninu og við rannsóknarsetrið. Þar að auki verða til afleidd störf sem skipta mörgum tugum vegna gistingar, verslana og veitingastaða sem þjónusta það fólk sem hingað kemur í hvalaskoðun,” segir Örlygur Hnefill Örlygsson formaður stjórnar Húsavíkurstofu

Að þessu átaki standa; Húsavíkurstofa, Hvalasafnið á Húsavík, Húsavík Cape Hotel, Fjallasýn, Gentle Giants, Norðursigling og Sölkusiglingar. Mun nýja vörumerkið styrkja áfangastaðinn Húsavík og er horft til frekara samstarfs aðila í ferðaþjónustu á Húsavík.
“Þetta er mjög spennandi verkefni sem við erum að setja á laggirnar. Uppbygging ferðaþjónustunnar á Húsavík hefur verið í kringum hvalina og erum við fyrir löngu orðin þekkt fyrir það. Því er þetta samstarf okkar rökrétt framhald í að samræma þau skilaboð sem við sendum innlendum sem erlendum ferðamönnum þegar þeir eru að leita sér að áfangastað um landið”. segir Einar Gíslason forstöðumaður Hvalasafnsins á Húsavík.