Húsavíkurstofa hættir starfsemi að svo stöddu

0
133

Aðalfundur Húsavíkurstofu hefur ákveðið að hætta allri starfsemi að svo stöddu þar sem ekki náðist samkomulag við Norðurþing um verkefnaval. Í fréttatilkynningu segir að Húsvíkurstofa hafi um árabil sinnt rekstri upplýsingamiðstöðvar og tjaldsvæðis á Húsavík. Að auki hefur Húsavíkurstofa hýst Mærudaga sem er bæjarhátíð Húsvíkinga. Upphaflegur tilgangur Húsavíkurstofu var hins vegar að vera samnefnari fyrirtækja í auglýsinga- og kynningarmálum ásamt því að gera Húsavík að eftirsóknarverðum áfangastað í þjónustu-  og byggðalegu tilliti.

Húsavíkurstofa

Eftir ítarlegar viðræður við Norðurþing um verkefnaval og fjármögnun er ljóst að ekki er samhljómur á milli sveitarfélagsins og hagsmunaaðila á svæðinu um reksturinn. Norðurþing hefur í viðræðum að undaförnu lagt megin áherslu á rekstur tjaldsvæðis og klósettaðstöðu við höfnina en jafnframt ákveðið að draga sig út úr rekstri upplýsingamiðstöðvar á Húsavík eins og fram kemur í fundargerð Byggðaráðs Norðurþings 31. mars 2016.

Mikil eining var meðal fundargesta á aðalfundi Húsavíkurstofu um að hætta allri starfsemi Húsavíkurstofu að svo stöddu. Var tillaga þess efnis samþykkt samhljóma.

Að sögn Heiðars Halldórssonar nýkjörins formanns stjórnar Húsavíkurstofu sjá hagsmunaaðilar á svæðinu ekki tilgang í því að styrkja starfsemi á borð við tjaldsvæði eða klósettrekstur sem að öllu jöfnu væri betur niðurkomin annar staðar en hjá aðila sem á að sinna markaðssetningu svæðisins sem áfangastaðar.

Húsavíkurstofa á vörumerkið „Húsavík the whale capital of Iceland“. Efnahagslegur ávinningur svæðisins vegna ferðaþjónustu er töluverður, en áætluð ferðaþjónustutengd velta fyrirtækja í Þingeyjarsýslum árið 2013 er metin 4,7 milljarðar króna.

Kosin var ný stjórn sem hefur það hlutverk að losa Húsavíkurstofu frá öllum rekstrarlegum skuldbindingum en jafnframt skoða aðra möguleika sem gætu tryggt að Húsavíkurstofa gæti sinnt upphaflegum tilgangi sínum með sómasamlegum hætti.