Hulda og Sveinbjörn á Búvöllum – Hafa framleitt úrvalsmjólk í 23 ár !

0
167

Kúbændurnir Hulda Kristjánsdóttir og Sveinbjörn Þór Sigurðsson á Búvöllum í Aðaldal fengu verðlaun fyrir úrvalsmjólk á deildarfundi MS sem haldinn var í Sveinbjarnargerði nú nýlega ásamt 26 öðrum kúabændum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. Hulda og Sveinbjörn voru ekki að taka við verðlaunum fyrir úrvalsmjólk í fyrsta skipti því þau hafa framleitt úrvalsmjólk sl. 24 ára að einu ári undaskildu.

Hulda og Sveinbjörn á Búvöllum
Hulda og Sveinbjörn á Búvöllum

Íslandsmet ?

Ekkert annað kúabú í Þingeyjarsýslu eða Eyjafirði hefur fengið verðlaun fyrir úrvalsmjólk svona oft og er þetta því met í Norðausturdeild og sennilega er þetta einnig Íslandsmet. Það hefur þó ekki fengist staðfest.

Á Búvöllum í Aðaldal eru um 40 mjólkandi kýr og sagði Sveinbjörn Þór í spjalli við 641.is aldrei hafa tekið mjólk frá til þess eins að halda sér innan marka sem sett eru um úrvalsmjólk. “Við vinnum þetta saman við hjónin. Hulda sér að mesti leiti um þrif á mjaltatækjum en ég mjólka yfirleitt kýrnar svo að þetta er okkar samvinnuverkefni og það hefur gefist mjög vel”.

Hulda og Sveinbjörn fengu fyrst verðlaun fyrir úrvalsmjólk árið 1992 en þá lögðu þau mjólk inn hjá Mjólkursamlagi Kaupfélags Þingeyinga (MSKÞ) á Húsavík eins og aðrir Þingeyskir kúabændur.

MSKÞ byrjaði að verðlauna Þingeyska kúabændur fyrir úrvalsmjólk fyrst árið 1989 og Mjólkursamlag KEA á Akureyri byrjaði að verðlauna Eyfirska kúabændur árið 1991. Kröfur til úrvalsmjólkur voru svipaðar á báðum stöðum á þeim tíma, en þær voru þó eilítið strangari á Húsavík.

Um aldamótin voru mjólkursamlögin sameinuð í Norðurmjólk á Akureyri og eftir það gilltu sömu kröfur til úrvalsmjólkur á öllu svæðinu sem og á öllu landinu. Fljótlega upp úr því voru kröfur til úrvalsmjólkur hertar nokkuð og fljótlega eftir það voru teknar upp sérstakar aukagreiðslur til þeirra sem framleiddu úrvalsmjólk. Þær greiðslur eru þó mjög lágar. Kröfur til úrvalsmjólkur árið 1989 voru ekki mjög strangar, en síðan þá hafa þær verið hertar eins og áður segir og bændum sem ná að halda sig innan markanna hefur fækkað.

Sveinbjörn Þór Sigurðsson með verðlaun fyrir úrvalsmjólk 2016
Sveinbjörn Þór Sigurðsson með verðlaun fyrir úrvalsmjólk 2016

 

Hlutfall kúabænda sem fengið hafa verðlaun fyrir úrvalsmjólk hefur alltaf verið mjög hátt í Norðausturdeild í gegnum tíðina og þá sérstaklega í Þingeyjarsýslu. Eitt árið voru verðlaunahafar yfir 70 talsins í deildinni. Margir framleiðendur sem fengu þessi verðlaun ár eftir ár, hafa hætt framleiðslu á síðustu árum enda voru margir þeirra smáir og/eða komnir á aldur.

Tvö önnur kúabú í Norðausturdeild eru ekki langt á eftir þeim Huldu og Sveinbirni í samanlögðum árafjölda varðandi úrvalsmjólk, en Engihlíð í Þingeyjarsveit og Klauf í Eyjafjarðarsveit hafa fengið verðlaun fyrir úrvalsmjólk í um 20 ár.

 

 

Kröfur til úrvalsmjólkur. (1. flokkur A)

– Mörk fyrir 1. flokk A eru eftirfarandi:
– beint meðaltal líftölu mánaðar þarf að vera undir 25 þús,
– faldmeðaltal frumutölu mánaðarins þarf að vera undir 220 þús.
– engar lyfjaleifar mega finnast í mánuðinum.
– faldmeðaltal frírra fitusýra þarf að vera minna eða jafnt og 1,1 mmol/l
– að öðru leiti þarf mjólk mánaðarins að standast kröfur um 1. flokk.