Hugleiðing við áramót

0
114

Gott er að líta um öxl nú í skammdeginu, við birtu jólaljósanna, og fara yfir árið sem er að líða. Þar stendur eðlilega næst manni törnin í aðdraganda jólanna en á starfsfólki fyrirtækisins er mikið álag við að framleiða hátíðamat fyrir landann. Þar ber hæst þjóðlegar vörur svo sem hangikjöt og hamborgarhrygg, en reikna má með að starfsfólk Norðlenska framleiði og selji magn sem nemur tveimur til þremur máltíðum fyrir hvert mannsbarn hérlendis um jólin. Þar að auki er mikið framleitt af annari gæðavöru svo sem léttreyktum lambahrygg, bayonneskinku, salami og allskonar öðru góðgæti sem vinsælt er á jólum, segir Sigmundur Ófeigsson í pistli sem hann ritar á heimasíðu Norðlenska.

Sigmundur Ófeigsson
Sigmundur Ófeigsson

Norðlenska er með starfsstöðvar á Akureyri, Húsavík og Höfn í Hornafirði auk þess sem söluskrifstofa er í Reykjavík. Félagið er alfarið í eigu bænda og eru þeir nú 540 sem eiga fyrirtækið. Allir leggja þeir inn framleiðslu sína til slátrunar hjá Norðlenska, auk margra annarra bænda.
Það er hlutverk okkar stjórnenda Norðlenska, og annarra starfsmanna, að rækta félagið svo þar fara saman hagsmunir starfsfólks og eigenda. Á þann hátt vex fyrirtækið og dafnar og hefur kraft til að standa með bændum og starfsmönnum, og til að sinna samfélagslegu hlutverki með því að láta sig nærsamfélagið og umhverfi varða. Þessari stefnu hefur verið fylgt fast eftir og má segja að vel hafi tekst til við að vinna afbragðs vörur úr framúrskarandi hráefni sem félagið fær frá bændum. Þannig eiga neytendur að geta treyst því að fá gæða framleiðsluvörur frá Norðlenska undir merkjunum Goði, KEA, Húsavíkur og Bautabúrið, svo einhverjar séu nefndar.

Veðurguðirnir voru okkur ekki vinveittir þetta haustið. Bændur sem eiga í raun lífsafkomu sína undir veðráttunni hafa heldur betur fengið að finna fyrir öfgum náttúruaflanna. Sumarið var afar þurrt en þó hlýtt. Þurrkarnir urðu til þess að grasspretta var minni en ella, á haustmánuðum kom svo mikil vætutíð sem gerði heyskap erfiðan. Hér fyrir norðan skall svo á hinn harðasti vetur strax í september og urðu bændur fyrir miklum skaða vegna búfénaðar sem varð úti í óveðrinu. Ástandið þróaðist þannig að bændur voru farnir að hýsa búfénað strax í september og margir ekki með mikil hey í húsum. Síðan þá hefur verið hin versta ótíð og eru menn strax farnir að óttast kal í túnum enda ekki verið þíða síðan í byrjun október. Nú er bara að vona að þessari ótíð ljúki og við taki mildur þorri og góa og svo vori bara snemma.

Að lokum við ég þakka eigendum, starfsmönnum og stjórn félagsins gott samstarf á árinu sem er að líða. Neytendur, viðskiptavinir okkar, eiga líka þakkir skildar fyrir jákvæðni í okkar garð og það hversu duglegir þeir hafa verið að velja vörur frá Norðlenska við innkaupin.

Með þakklæti fyrir liðið ár og ósk um gott og farsælt komandi ár.

Sigmundur Einar Ófeigsson Framkvæmdastjóri Norðlenska