HSÞ – Þrír Íslandsmeistaratitlar á MÍ 15-22 ára

Pistill frá Frjálsíþróttaráði HSÞ

0
474

Síðastliðinn fimmtudagsmorgun var ekkert útlit fyrir ferðaveður á föstudeginum en þá áttu 14 iðkendur, farastjórar og þjálfari bókað flugfar suður til að taka þátt í MÍ 15-22 ára í Laugardalshöll um helgina.  Tvennt var í stöðunni að hætta við að fara á mót eða fara af stað strax um kvöldið og auðvitað var rétta ákvörðunin tekin.  Flugfélagið vildi ekki breyta fluginu nema með miklum tilkostnaði og þá var hringt í Fjallasýn sem keyrði okkur suður og á það bestu þakkir skildar fyrir frábæra þjónustu og gott viðmót.  Því miður datt einn iðkandi okkar út á fimmtudeginum vegna meiðsla.

Hilmir Smári varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 800 og 1500m

Við komum til Reykjavíkur um klukkan 2 um nóttina og fórum þá  beint í  verkalýðsíbúð Framsýnar í Kópavogi, en þar fengum við gistingu fyrstu nóttina. Á föstudagsmorgun var ljóst að ekkert yrði flogið innanlands og við því ánægð með að vera komin suður.  Við pökkuðum saman dótinu og fengum að koma því fyrr inn í Laugalækjarskóla þar sem við gistum restina af helginni. Þar sem Brói komst ekki með okkur og fararstjórar ekki með leyfi til að aka bilaleigubílnum var mikið notast við leigubíla þennan dag enda ekki mikill áhugi á að labba í slabbinu og slyddunni sem Reykjavíkin bauð okkur uppá.  Sumir leigubílstjórarnir voru með allt á hornum sér en aðrir kenndu okkur allt um sénsbeygjur og borgarstjórabeygjur.  Klukkan 16 vorum við búin að fá leyfi til að fara í Laugardalshöll og taka lauflétta æfingu og slípa þau atriði sem þurfti fyrir mótið. Eftir æfingu var svo farið í sund og fengið sér að borða.

Á Laugardagsmorgun þurftum við að vakna fekar snemma af því það var keppnisdagur.  Ljóst var að Brói myndi ekki komast fyrr en flestir hefðu lokið keppni fyrri daginn.  Var því brýnt fyrir keppendum að það hefði farið talsvert mikil vinna í að koma þeim á þetta mót og nú væri komið að þeim að sýna hvað í þeim byggi.  Þau voru einnig minnt á að nota hausinn og hafa hann með í keppni dagsins.  Markmið fyrir mótið var sett en það var að ná 14 persónulegum bætingum samtals.

Fyrri keppnis dagur byrjaði mjög vel.  Jón Alexander H. Artúrsson varð íslandsmeistari í kúlu með mikla bætingu kastaði 13,40 m.  Sindri Þór náði 3. sæti einnig með góða bætingu kastaði 11,79 m.   Halldór Tumi og Sindri Þór hlupu sig í úrslit í  60 m. hlaupi.  Sindri Þór náði 2. sæti með persónulega bætingu hljóp á 7,82 sek. Hilmir Smári varð einnig íslandsmeistari í 800 m. hlaupi  hljóp á 2,11,12 min. Eftir fyrri dag voru strax komnar 8 persónulegar bætingar.

Jón Alexander Íslandsmeistari í kúlu og Sindri Þór sem varð í 3.sæti

Eftir keppni sem kláraðist snemma var farið í óvissuferð sem vakti mikla lukku hjá krökkunum og við fengum nýjan bílstjóra sem var mikið betri en hinir. Hann heitir Jón Friðrik en gengur undir nafninu Brói. Það var farið í lazertag, skolað af sér í smá stund í sundi, borðað á Pizza hut og restinni af orkunni var eytt í Skemmtigarðinum í Smáralind.

Á sunnudagsmorguninn vöknuðum við snemma og fengum þær fréttir að mótinu hefði verið frestað um 2 klst vegna  ófærðar í bænum. Pínu orka fór í að spá og spekulera hvort við næðum að klára mót áður en við áttum bókað flug um kvöldið. Mótshaldarar sendu okkur póst um að mótið yrði látið ganga hratt fyrir sig og þvi urðum við rólegri og vonuðum okkar besta. Fórum við því að ganga frá í skólanum. Brói komst svo á bílnum til okkar í skólann en það var ekki sjálfsagt vegna snjós. Við vorum svo heppin að maður sem býr við hliðina á skólanum var að leggja af stað á hjólaskóflu þegar Brói var að koma og stakk  í gegn einn hring á planinu til að bíllinn kæmist að skólanum. Þegar við vorum komin upp í Laugardalshöll voru fáir komnir. Þar sem einn af okkar keppendum var staddur í Kópavogi fórum við að athuga hvort hann kæmist til keppni en því miður tókst það ekki vegna akstursskilyrða.

Keppendur héldu nú áfram að bæta sig og varð Hilmir Smári aftur íslandsmeistari en nú í 1500 m. hlaupi hljóp á 4,42,51 á persónulegu meti.  Halldór Tumi varð 2 í langstökki á nýju persónulegu meti stökk 6,09 m.  Keppni hjá okkar fólki lauk með boðhlaupi hjá piltum 16-17 ára og voru þeir grátlega nærri 3 sætinu. Alls settu keppendur okkar 15 persónulegar bætingar og náðist því markmiðið.  15 lið áttu keppendur á mótinu og endaði lið HSÞ í 8 sæti í heildina með 39 stig en 6 efstu sætin í hverri grein gefa stig.

Eftir mót var fyllt á bílinn og svanga maga og svo haldið  út á flugvöll en þar beið okkar svo þotan Eldfell sem skilaði okkur hratt og örugglega heim eftir frábæra daga í Reykjavík.

Enn og aftur sýndu iðkendur okkar flotta framkomu, hjálpuðu til við að leysa vandamál  og létu aldrei neitt slá sig út af laginu enda var mottó ferðarinnar „engin vandamál, bara lausnir“.