Kvikmyndin Hrútar var frumsýnd í Laugabíói í Reykjadal nú í kvöld að viðstöddu fjölmenni, en um sérstaka boðsýningu var að ræða. Grímur Hákonarson leikstjóri og Grímar Jónsson framleiðandi sögðu að þeir vildu frumsýna myndina á heimavelli, í næsta nágrenni tökustaðanna og þakka öllum þeim Bárðdælingum og Þingeyingum sem aðstoðuðu þá við gerð myndarinnar.

Eins og kunnugt er vann kvikmyndin Hrútar til Un Certain Regard verðlaunana í samnefndum flokki á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir tveimur dögum síðan og má því segja að hún hafi komið glóðvolg til sýningar í Laugabíói. Aðstandendum og leikurum var klappað lof í lófa að lokinni sýningu og var greinilegt að myndin féll í góðan jarðveg hjá áhorfendum. Meðfylgjandi myndir voru teknar á frumsýningunni í kvöld.





