Hrútar frumsýnd í dag – Bárðdælingur í Cannes

0
312

Anna Sæunn Ólafsdóttir frá Bjarnastöðum í Bárðardal er kominn til Cannes í Frakklandi þar sem hún verður viðstödd ásamt fjölmörgum öðrum Íslendingum, alheimsfrumsýningu á Íslensku kvikmyndinni Hrútar, (The Rams) sem tekin var upp í Bárðardal sl. sumar og vetur. Kvikmyndin Hrútar var eins og kunnugt er, valin til þátttöku í Un Certain Regard keppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar, en í þeim flokki keppa myndir sem þykja frumlegar. Hún verður frumsýnd í dag.

Anna Sæunn Ólafsdóttir
Anna Sæunn Ólafsdóttir

Hátíðin hófst í vikunni og mun standa fram frá 23. maí. Í spjalli við Önnu Sæunn nýlega sagðist hún vera mjög spennt fyrir þessu og hlakkaði mikið til að vera viðstödd eina af stærstu kvikmyndahátíðum í heimi.

Un Certain Regard keppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar er keppni þar sem ungum og lýtt reyndum leikstjórum og kvikmyndagerðafólki er boðið að kynna sýnar myndir og hlotnaðist aðstandendum kvikmyndarinnar Hrútar, sá mikli heiður að vera valin ein af 20 myndum sem komust að þessu sinni í keppnina af um 4000 sem sóttust eftir því. Í aðalhluta hátíðarinnar í Cannes keppa ma. Hollywood-myndir eftir þekkta leikstjóra og með stórstjörnum innanborðs og kvaðst Anna Sæunn ekki koma til með að labba á rauða dreglinum. “Við löbbum inn á bláum dregli þegar myndin verður frumsýnd. Rauði dregillinn er bara fyrir stórstjörnunar”, sagði Anna Sæunn.

Að sögn Önnu Sæunnar verða um 20 manns frá Íslandi á hátíðinni í Cannes en kvikmyndin Hrútar verður frumsýnd í dag, föstudaginn 15. maí og verða tvær sýningar á myndinni í dag. Hún verður einnig sýnd á morgun laugardag. Úrslitin á kvikmyndahátíðinni í Cannes verða svo tilkynnt 23. maí í báðum flokkum hátíðarinnar.

Anna Sæunn leikur Siggu löggu í myndinni og segir hún að það sé mjög lítið hlutverk. Anna Sæunn vinnur líka við framleiðslu og kynningu á myndinni og er það aðalástæða veru hennar í Cannes. Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson leika aðalhlutverkin í myndinni, auk heimafólks sem leika nokkur misstór hlutverk í myndinni. Heimafólkið Ólafur Ólafsson, Guðrún Sveinbjörsdóttir, Jenný Lára Arnórsdóttir og Sigurlína Tryggvadóttir leika í myndinni, auk Jóns Friðriks Benónýssonar sem fer að sögn á kostum í hlutverki Runólfs, sem er fjórða stærsta hlutverkið í myndinni. Auk þess eru flest allir aukaleikarar myndarinnar úr Bárðardal eða Þingeyjarsveit.

Valin á kvikmyndaráðstefnu í Litháen

En Anna Sæunn er með mörg járn í eldinu. Fyrir fáeinum dögum var hún valin sem einn af fimm fulltrúum Íslands til að taka þátt í ráðstefnu um stuttmyndir í Litháen sem fram fer í júni og er í tengslum við kvikmyndahátíðina Scanorama sem sérhæfir sig í norrænum kvikmyndum. Anna Sæunn er einnig meðframleiðandi og aðstoðarleikstjóri tveggja stuttmynda sem koma út á þessu ári, en það eru myndirnar Rainbow Party og The Hot Tub sem er heimildastuttmynd. Hennar frumraun og útskriftarverkefni úr Kvikmyndaskóla Íslands var stuttmyndin Flökkusál sem tekin var upp í Bárðardal og frumsýnd árið 2012.

Flökkusál

 

Óhætt er að segja að mikil eftirvænting ríki í Bárðardal og víðar í Þingeyjarsýslu eftir því að sjá myndina Hrútar og óstaðfestar fregnir herma að hún verði frumsýnd á Íslandi mjög fljótlega eftir kvikmyndahátíðina í Cannes og þá jafnvel í maílok.

Engir formlegir kvikmyndadómar hafa birst um Hrúta en hún hefur fengið lofsamlega dóma þeirra sem séð hafa myndina. Haft er eftir Ragnari Bragasyni leikstjóra (Börn, Bjarnfreðarson, Málmhaus) í blaðinu Bíómyndir mánaðarins, að Hrútar sé ein allra besta íslenska kvikmyndin frá upphafi.

 

Grímur Hákonarson (Hvellur) leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum. Aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson fyrir Netop Films og meðframleiðendur eru hin dönsku Ditte Milsted og Jacob Jarek fyrir Profile Pictures. Þá er Þórir Snær Sigurjónsson einn af framleiðendum myndarinnar. Framleiðslustjórn er í höndum Evu Sigurðardóttur. Með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Norðmannsins Sturla Brandth Grøvlen og Kristján Loðmfjörð sér um klippingu myndarinnar. Tónlist myndarinnar er samin af Atla Örvarssyni og hljóðhönnun er í höndum Huldars Freys Arnarssonar.