Hreindýrstarfur sést vestan Jökulsár á Fjöllum

0
144

Júlíus Freyr Theódórsson, leiðsögumaður hjá Saga Travel, greinir frá því á fésbók í gærkvöld að hann hafi séð hreindýratarf skammt frá Dettifossi, vestan Jökulsár á Fjöllum. Hringbraut.is segir frá þessu í morgun.

Hreindýrstarfurinn. Mynd: Júlíus Freyr Theodórsson
Hreindýrstarfurinn. Mynd: Júlíus Freyr Theodórsson

 

Júlíus Freyr skrifar við myndina eftirfarandi.

„Rakst á þennan einmana tarf í dag, það skrýtna við það er sú staðreynd að þetta er tekið vestan Jökulsár á fjöllum, ekki fjarri Dettifossi. Gaman að þessu, farþegarnir mínir froðufellandi af gleði,“

 

Jóhann G Gunnarsson hjá Umhverfisstofnun sagði í spjalli við 641.is í morgun að líklega væri þetta sama dýr og sást í Þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum í síðustu viku. Jóhann taldi þetta vera ungan tarf af myndinni að dæma, sem hefði líklega villst frá hjörð sinni í haust.

Umhverfisstofnun mun eiga fund með fulltrúum frá Matvælastofnun og yfirdýralækni eftir hádegið í dag og líklegt verður að teljast að rætt verði um hvað gera eigi í stöðunni þar sem tarfurinn “á ekki að vera á flakki” vestan Jökulsár á Fjöllum. Jökulsá er sauðfjárveiki-varnalína og á að halda sauðfé frá því að fara vestur yfir rétt eins og hreindýrum.