Horfum til framtíðar við hönnun á Þeistareykjarlínu 1 og Kröflulínu 4

0
122

Landsnet hafnar alfarið fullyrðingum Landverndar um að nægjanlegt sé að byggja 132 kV línur á þeim svæðum sem um ræðir. Fullyrðingar Landverndar miðast við stöðuna eins og hún er í dag en tekur ekki tillit til framtíðar uppbyggingar á svæðinu.

landsnet

Við hönnun á Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4  þarf að horfa lengra en eingöngu á fyrsta áfanga Kísilverksmiðju PCC. Umhverfismat verksmiðju PCC gerir ráð fyrir tvöfalt stærri verksmiðju en nú er í byggingu. Engin ástæða er til að ætla að PCC hyggist ekki nýta þá orku sem matið gerir ráð fyrir.

Þegar ákvarðanir um línuframkvæmdir eru teknar er mikilvægt að horfa til langtímaspár um aukna notkun og áforma um uppbyggingu atvinnulífs til lengri tíma.  Þar sem línum Landsnets er ætlað að standa í 50-60 ár er við uppbyggingu þeirra nauðsynlegt að horfa áratugi fram á við  og vera tilbúin að mæta þörfum framtíðarinnar.

Umhverfismatið gerir ráð fyrir tvöfalt stærri verksmiðju

Stjórnvöld hafa skilgreint Bakka sem framtíðarsvæði fyrir uppbyggingu atvinnustarfsemi og sveitarfélagið vinnur að því að markaðssetja Bakka þannig að orkan á svæðinu sé nýtt þar. Áætluð orkuvinnsla svæðisins samkvæmt nýtingarflokki rammaáætlunar er yfir 500 MW. Mikil uppbygging  innviða við Húsavík er skýrt merki um þessa áherslu stjórnvalda. Því væri skammsýnt að byggja eingöngu línu sem dygði einu fyrirtæki.

Línunum er einnig ætlað að  styrkja tengingu og bæta öryggi fyrir Húsavík og nærsveitir en í dag er svæðið eingöngu tengt Laxárvirkjun um Húsavíkurlínu 1 sem er ein af elstu línum Landsnets.

132 kV lína takmarkar áform um frekari uppbyggingu

Á línuleiðinni  milli Kröflu og Bakka er áætluð orkuvinnsla við Þeistareyki. Orkuvinnslugetan á Þeistareykjum er metin á 270 MW að meðtöldu vestursvæði samkvæmt rammaáætlun, en það er vel yfir þeim  150 MW sem hefðbundnar 132 kV línur flytja. Nú er verið að byggja fyrsta áfanga Þeistareykjavirkjunar sem er 90 MW.

„ Þegar flutningskerfið er skipulagt þarf að hafa mörg sjónarmið í huga, tæknileg, fjárhagsleg og umhverfisleg og það getur verið varasamt að draga ályktanir út frá einföldum forsendum. Sé tekið mið af áformum  um iðnaða að Bakka og nýtingar orku í Þingeyjarsveit þá sést að forsendur Landverndar um að miða einungis við fyrsta áfanga verksmiðju PCC á Bakka eru skammsýnar. Taka verður tillit til framtíðaruppbyggingar atvinnusvæðisins á Bakka og þeirrar miklu orkuvinnslu sem áformuð er á svæðinu og þarf að flytja til notenda. Með hliðsjón af því mundi 132 kV lína takmarka þessi áform verulega „ segir Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri Þróunar- og tæknisviðs Landsnets.