Hörð gagnrýni á skólaskýrslu á Fræðslunefndarfundi

0
88

Á fundi Fræðslunefndar Þingeyjarsveitar sem haldinn var 24. nóvember kom fram hörð gagnrýni á skýrslu Haraldar Líndal Haraldssonar um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla. Þar er það ma. gagnrýnt að launakostnaður fyrir Hafralækjarskóla árið 2012 kom ekki inn í bókhald Þingeyjarsveitar fyrr en frá 1. ágúst 2012 og því er samanburðurinn í skýrslu Haraldar Líndal Haraldssonar ekki réttur þar sem hann bar þá saman launakostnað fyrir tímabilið 1.8 – 31.12 2012 við allt árið 2013. Hækkun á launalið var því um 8 % en ekki 50 – 60 % eins og fram kom í skýrslunni.

Þingeyjarsveit stærra

Á fundinum tók Fræðslunefnd til umsagnar skýrslur vegna Þingeyjarskóla þ.e. skýrslu HLH ehf. Um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla, skýrslu frá Skólastofan.is um skólaskipan og skýrslu frá Ráðbarður sf. um viðhalds og rýmisþörf.

 

Fræðslunefnd lýsti yfir ánægju með skýrslurnar og telur þær nýtast varðandi ákvarðanatöku um framtíðarskipan Þingeyjarskóla. Einnig munu þær nýtast Fræðslunefnd og skólastjóra í störfum sínum.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson fulltrúi kennara við Þingeyjarskóla lagði fram eftirfarandi ályktun frá kennarafundi Litlulaugaskóladeildar Þingeyjarskóla 24. Nóvember 2014

,,Kennurum við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla finnst þau vinnubrögð Ingvars Sigurgeirssonar við skýrslugerð sína að senda starfsmönnum drögin til yfirlestrar áður en hún var fullkláruð til fyrirmyndar, þó svo að okkur finnist vanta upp á faglegu hliðina sem hann átti að skoða í henni. Okkur finnst hinsvegar skýrsla Haraldar Líndal Haraldssonar illa unnin, þar sem ekki var nóg gert með þær athugasemdir sem gerðar voru að hálfu skólastjóra við yfirlestur, og því er hún full af staðreyndavillum. Einnig finnst okkur kennurum við Litlulaugadeild að okkur vegið í skýrslu Haraldar þar sem ýjað er að því að menn skammti sér hér yfirvinnu eftir hentugleikum. Þar sem þessar skýrslur eru nú orðnar heimildir um skólahald er það verulega bagalegt að ekki skuli farið rétt með staðreyndir.“

Lesa fundargerð Fræðslunefndar hér