Hópfjármögnun í Þingeyjarsveit – Heimagisting og kyrrðarmiðstöð

0
195

Hjónin Cornelia og Aðalsteinn Þorsteinsson sem bæði misstu vinnu sína sem kennarar þegar Litlulaugaskóla í Þingeyjarsveit var lokað sl. vor hafa hrundið af stað hópfjármögnunarverkefni. Líkt og fram kemur á söfnunarsíðu verkefnisins á www.karolinafund.com þá hyggjast þau gera endurbætur á heimili sínu, Hjalla, með það að markmiði að opna þar heimagistingu og kyrrðarmiðstöð.

Hjalli í Reykjadal
Hjalli í Reykjadal

 

Þau segjast hafa átt um tvennt að velja, selja og flytja í burtu eða takast á við þá áskorun að stofna til reksturs með það að markmiði að skapa sér sitt eigið lifibrauð. Á upplýsingasíðunni kemur jafnframt fram að þau hafi ánægju af því að fá gesti og vilji þjónusta þeim sífellt vaxandi fjölda ferðamanna sem ferðast um Ísland og er í leit að einfaldri gistingu þar sem hægt er um leið að kynnast landi og þjóð. Aðaláhersluna segjast þau þó muni leggja á að mæta fólki sem er í leit að kyrrlátum stað og hefur þörf fyrir ró og endurnæringu.

 

Með hópfjármögnun vonast Cornelia og Aðalsteinn til þess að fjármagna að hluta til þær endurbætur og breytingar sem nauðsynlegar voru á húsinu þeirra og gefst þeim sem taka þátt í verkefninu kostur á að fylgjast með framkvæmdum á Facebook síðu og nýta stuðning sinn sem greiðslu upp í gistingu hjá þeim síðar.

Nánari upplýsingar á íslensku, ensku og þýsku má finna á söfnunarsíðu Karolina Fund og á heimasíðu væntanlegrar gistiþjónustu þeirra hjóna cja.is