Holuhraun og Herðubreið ekki áhugaverðir staðir

0
341

Ferðamálastofa hefur opnað nýja vefsjá um áhugaverða viðkomustaði á Íslandi. Vefsjáin er afrakstur verkefnis um kortlagningu auðlinda ferðaþjónustunnar sem Alta ehf. vann fyrir Ferðamálastofu. Að vinnunni komu auk þess fjölmargir aðilar víðs vegar um landið sem höfðu það hlutverk að meta skráða staði út frá aðgengi og aðdráttarafli, lagfæra staðsetningu, fara yfir skráðar upplýsingar um hvern stað og benda á staði sem ekki voru þegar skráðir. Frá þessu segir á vef Ferðamálastofu.

Áhugaverðir staðir 1
Mörgum þykir þetta kort tómlegt. (skjáskot)

Athygli vekur að nokkrir staðir í Þingeyjarsýslu, sem flestir myndu telja til áhugaverða staða, eru ekki merktir inn á vefsjána sem áhugaverðir staðir. Má því ætla að Ferðamálastofa þyki ekki mikið til þeirra koma. Meðal “óáhugaverða” staða er td. Holuhraun hið nýja, norðan Dyngjujökuls, sem er með stærri hraunum á landinu og sjálf Herðubreið, drottning Íslenskra fjalla. Eins þykir Jökuldalur, Kiðagil og Tungnafellsjökull lítt áhugaverðir að mati Ferðamálastofu svo að dæmi sé tekið.

Áhugaverðir staðir 2
Kort yfir áhugaverða staði í byggð. (skjáskot)

Ef “óáhugaverðir” staðir í byggð samkvæmt Ferðmálastofu eru skoðaðir, vekur athygli að Flatey, Flateyjardalur, Fjörðum, Aðaldalshraun, Lundsskógur, Þórðarstaðaskógur, Ljósavatn, Másvatn, Svartárvatn og Barnafoss falla í þann vafasama flokk að fá ekki pláss á kortinu. Vel má vera að aðgengið þyki ekki gott að þessum stöðum en það á alls ekki við alla.

Þeir staðir sem fá þó þann heiður að komast inn á kortið, er skipt upp í staði sem þykja hafa miðlungs aðdráttarafl og staði sem hafa sérlega mikið aðdráttarafl. Dæmi um staði með miðlungs aðdráttarafl er t.d. vegurinn yfir Vaðlaheiði, Vestmannsvatn, Þorgeirskirkja, Hofstaðir og Æðarfossar. Staðir með mikið aðdráttarafl eru td. Vaglaskógur, Goðafoss, Aldeyjarfoss, Höfði, Dimmuborgir, Hverfjall, Jarðböðin, Hraunsrétt, Dettifoss, Ásbyrgi og fleiri.

Í frétt á vef Ferðamálastofu segir að vísu að ljóst sé að lengi megi bæta við það sem þegar er komið og er þeim sem vilja koma með ábendingar eða leiðréttingar bent á að hafa samband með því að senda póst á kortlagning@ferdamalastofa.is

 

Hér má skoða vefsjá Ferðamálastofu