Hollvinasamtök Þorgeirskirkju

0
442

Þann 7. ágúst var haldinn stofnfundur Hollvinasamtaka Þorgeirskirkju. Þorgeirskirkja var vígð 6. ágúst árið 2000, til að minnast 1000 ára kristnitöku í landinu. Eins og margir vita var það þorgeir ljósvetningagoði, þá heiðinn maður, sem lagðist undir feld sinn og tók þar ákvörðun um að kristni skyldi tekin upp, að ein lög og einn siður skyldi ríkja í landinu, en menn mættu blóta á laun. Hann vildi koma hreint fram og henti sínum goðum í fossinn, stutt frá bæ sínum Ljósavatni, sem síðan heitir Goðafoss. Þessi ákvörðun Þorgeirs er talin hafa komið í veg fyrir miklar blóðúthellingar og ófrið.
Þorgeirskirkja er ekki bara venjuleg sóknarkirkja heldur eign allra landsmanna vegna sérstöðu sinnar sem minnismerki um mjög sögulegan atburð. Það eru margir utan sóknar sem vilja nota kirkjuna undir helgustu stundir lífs síns s.s. brúðkaup eða skírnir barna sinna, vegna sögu kirkjunnar.
Hugur þeirra sem stofnfundinn sóttu er að gera veg Þorgeirskirkju sem mestan og bestan, allir bera mikinn og hlýjan hug til kirkjunnar.
Markmið hollvinasamtakanna er að styðja við og styrkja starfsemi kirkjunnar, þó ekki að koma að rekstri kirkjunnar, heldur að taka að sér ákveðin verðug verkefni, í samráði við sóknarnefnd. Þetta fer þannig fram, að hver hollvinur greiðir árgjald, inná reikning félagsins, haldinn skal að lágmarki aðalfundur ár hvert, þar getur fólk komið með hugmyndir að verkefnum. Einnig er vel hugsandi að haldnir verði vinnudagar þar sem fólk kemur saman og gefur vinnu sína við einhver fyrirfram ákveðin verkefni, og þá verður örugglega skellt í vöfflur, hellt uppá kaffi og samveru notið.
Á stofnfundinum gaf Anna Kristín Ragnarsdóttir Arnstapa kost á sér sem formaður, (annakr26@simnet.is) með henni í stjórn eru Aníta Þórarinsdóttir Hlíðarenda og Sigrún Birna Sigtryggsdóttir frá Hriflu, búsett á Akureyri.

Fundargestir. Jón Ingason sem tók myndina.

Fundurinn var góður, létt var yfir öllum og bjartsýni ríkjandi, fundinum lauk með andakt séra Bolla okkar Bollasonar og bæn séra Sr. Jóns Ármanns Gíslasonar prófasts í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi sem bað fyrir nýstofnuðum samtökum.
Allir geta orðið hollvinir, hvenær sem er. Ef fólk hefur ekki komist á fundinn en vill vera með, er best að hafa samband við einhverja þessarra góðu kvenna sem tóku að sér að sitja í stjórn.

Margir telja þetta fallegustu altaristöfluna, vegna þess að hún er sköpun Guðs, sjálf náttúran.
safnaðarheimilið