Heybirgðir í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum

0
142

Til bænda á norðausturlandi. Í ljósi stöðunnar hér hjá okkur á norðausturlandi eftir heldur kalt vor, þurrkasumar og hamfaraveður að hausti teljum við mikilvægt að fá sem allra fyrst grófa yfirsýn yfir heyforða á svæðinu. Ljóst er að sumir  bændur hafa ekki nægan heyforða fyrir veturinn en aðrir kunna að eiga umframbirgðir.

Í þessu samhengi erum við að horfa á raunverulegar fóðurþarfir sem jafnan eru heldur meiri en það sem reglugerðir kveða á um, ekki síst þegar gjafatími lengist óumflýjanlega á sumum svæðum.

 

 

Við biðjum því sérstaklega um eftirtaldar upplýsingar frá annarsvegar þeim sem vantar hey og hinsvegar frá þeim sem eiga umframbirgðir.

Hversu mikið hey áttu (t.d. fjöldi rúlla)?
Hve mikið af því er þokkalegt eða gott hey ?
Hversu mikið telur þú þig þurfa?
Viltu selja hey og þá hve mikið ?

Ég ítreka að svörin þurfa ekki að vera mjög nákvæm en þau skipta máli í þeirri vinnu sem við stöndum frammi fyrir nú varðandi fóðurmiðlun og upplýsingaöflun fyrir Bjargráðasjóð.

Svör má gjarnan senda á undirritaðan á netfangið vignir@bugardur.is eða í síma 460-4477, 896-1838.

Einnig á Maríu Svanþrúði, msj@bondi.is eða í síma 464-2491, 894-7375.

Þó enn sé margt óljóst um afleiðingar óveðursins 10. og  11. september sl. er ljóst að margir hafa orðið fyrir verulegu tjóni, bæði á búfé og girðingum, en einnig á heyi þar sem að margir áttu eftir að slá seinni slátt og jafnvel grænfóður. Ljóst er að gæði þess heys sem slegið er eftir þetta áhlaup eru mun lakari en til var efnt.

Við hjá Búgarði hvetjum bændur til að svara okkur sem fyrst og minnum á að nú sem endranær erum við ykkar tengiliðir við m.a. Bjargráðasjóð og munum aðstoða ykkur við umsóknir um tjónabætur.

Vignir Sigurðsson