Herverk sem breytti Íslandi

0
332

Hann segist hafa verið hræddur þegar myndin var frumsýnd, eini sprengimaðurinn sem lifir. Akureyri vikublað heimsótti Arngrím Geirsson kennara og hestabónda á Álftagerði. Hann rýfur loks 42ja ára leynd.

Arngrímur Geirsson. Mynd Völundur Jónsson (Akureyri Vikublað)
Arngrímur Geirsson. Mynd Völundur Jónsson (Akureyri Vikublað)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrír menn sprengdu stífluna við Miðkvísl efst í Laxá þegar Laxárdeilan stóð sem hæst. Guðmundur Jónsson á Hofsstöðum var lykilmaður þar sem hann hafði sem meindýraeyðir kunnáttu til að fást við dýnamít. Hinir voru Sigurgeir Pétursson á Gautlöndum og Arngrímur Geirsson.

Var það stór ákvörðun að greina loks öllum þessum árum síðar opinberlega frá ykkur „tilræðismönnunum“?
Nei, kannski ekki. En á sínum tíma var ákveðið að dreifa ábyrgðinni ef reynt yrði að tína fólk út úr og sakfella. Guðmundur á Hofsstöðum hafði réttindi til að fara með sprengiefni en það þurfti menn með honum. Þegar við fórum að heiman var ekki fyrirhugað að sprengja neitt heldur ryðja stíflunni úr Miðkvísl. Kom þá í ljós að hún var með steinsteyptum kjarna.

Var þá tekin sú skyndiákvörðun að sprengja með dýnamíti?
Já, í rauninni. Auðvitað var reynt að grafast fyrir um þessa hluti, hverjir áttu í hlut, hverjir hleyptu straumnum á hleðslurnar en það er ekki fyrr en við undirbúning þessarar kvikmyndar þegar Guðmundur er heimsóttur, mikið veikur af sykursýki, á sjúkrahúsið á Húsavík sem hann segir frá.

Vissi konan þín af þinni þátttöku?
Já.

Þú ert kennari á þessum tíma, 33ja ára gamall og kennir við Laugaskóla, löghlýðinn borgari og fyrirmynd nemenda. Tókst ekki tvennt á í þér í málinu, þú hefur væntanlega vitað að þú færir a.m.k. á sakaskrá.
Ég gerði mér grein fyrir því að herverk af þessu tagi gæti dregið dilk á eftir sér, en baráttan hófst ekki þarna, þegar við sprengdum var búið að reyna að koma af stað viðræðum í fjögur ár um aðrar leiðir en þær komust ekki á fyrr en eftir þessa aðgerð. Ef þú skoðar hugmyndirnar um vatnaflutningana – þegar verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen kemur með hugmyndir sínar árið 1967 að mig minnir þá var ekki gert ráð fyrir bótum af neinu tagi. Borðleggjandi var eigi að síður að fjölmargar jarðar í Laxárdal og Mývatnssveit yrðu óbyggilegar auk þess sem Mývatn og Laxá yrðu ekki sama vatnasvæði á eftir.

Þú notar orðið herverk, en í markaðssetningu Hvells hefur verið talað um fyrsta íslenska hryðjuverkið.
Ég vil gera greinarmun á þessu tvennu en þarna voru eigur fyrirtækis eyðilagðar án þess þó að þær hefðu verið settar niður með nokkru leyfi, þannig var framgangsmátinn á þessum tíma. Mestu áhrifin sem sprengingin hafði voru að eftir hana voru gerðir samningar við landeigendur um allt Ísland þegar ráðast átti í virkjanaframkvæmdir.

Kvittarðu undir að sprengingin marki upphaf náttúruverndar, nýrra siða og samskipta milli virkjanaaðila og annarra?
Ég vil ekki fullyrða það en þetta átti mikinn þátt í breytingum. Nokkrir stjórnmálamenn voru fyrir sprenginguna á okkar bandi, ég nefni mann eins og Eystein Jónsson svo studdi okkur ákveðinn hluti af pressunni og fréttamönnum. Þegar kom til réttarhaldanna fengum við svo mikinn stuðning utan úr heimi, hingað kom þekktur náttúruverndarbaráttumaður frá Noregi og heimsótti okkur svo eitt dæmi sé tekið.

Hvaða tilfinningar bærðust í brjósti þér þegar þú sást myndina?
Ég skal viðurkenna að ég var töluvert hræddur.

Hræddur?
Já, um það að þetta yrði dramatíserað úr hófi fram eða dregnar of víðtækar ályktanir. Það er ekki gert og ég er mjög ánægður með þessa mynd. Mér finnst framsetninign hófstillt en þetta er ekki heimildarmynd vegna þess að Laxárvirkjun kemur engum vörnum við.

Fannstu fyrir stolti?
Já, ég held það og ég hef reyndar alltaf talið það mér heldur til tekna að hafa verið þátttakandi þarna megin í þessu stríði.

Texti: Björn Þorláksson. Birt með góðfúslegu leyfi Akureyri Vikublaðs.