Helgi Héðins efstur á H-listanum í Skútustaðahreppi – Ingvi Ragnar oddviti gefur ekki kost á sér áfram

Þorsteinn Gunnarsson er sveitarstjóraefni listans

0
815

Helgi Héðinsson Geiteyjarströnd, skipar fyrsta sæti H-Listans í Skútustaðahreppi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí. Elísabet Sigurðardóttir Reykjahlíð, skipar annað sætið og Sigurður Böðvarsson Gautlöndum, skipar þriðja sætið.

Þó nokkrar breytingar eru á skipan H-Listans frá því síðast. Ingvi Ragnar Kristjánsson núverandi oddviti Skútustaðahrepps og efsti maður H-Listans frá því í síðustu sveitarstjórnarkosningum, gefur ekki kost á sér á listann núna og það gerir Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir sem skipaði annað sætið, ekki heldur. Guðrún Brynleifsdóttir sem skipaði fjórða sæti H-Listans árið 2014 er ekki á listanum vegna brottflutnings úr hreppnum.

Dagbjört Bjarnadóttir Vagnbrekku kemur inn í fjórða sætið í ár og Friðrik Jakobsson Álftagerði, er í fimmta sæti eins og síðast. Sigurður Böðvarsson varaoddviti var í þriðja sæti þá eins og nú.

H-Listinn var eina framboðið fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Skútustaðahreppi í kosningunum árið 2014 og var því sjálfkjörið í sveitarstjórn þá. Ekki liggur fyrir hvort annað framboð sé í kortunum í Skútustaðahreppi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í ár.

Helgi Héðinsson, sem skipaði sjötta sætið á listanum árið 2014 gerði grein fyrir framboði H-listans í facebookfærslu í gærkvöld. Þar sem einnig má lesa helstu baráttumál H-listans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí.

Færsluna má lesa hér fyrir neðan.

“Þá liggur fyrir að H-Listinn, sem settur var á laggirnar fyrir rúmum fjórum árum, mun gefa kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir íbúa Skútustaðahrepps. Síðustu ár hafa verið viðburðarík og við erum stolt af okkar framlagi og þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að móta framtíðina. Nú er viðfangsefnið að byggja ofan á traustan grunn og gera enn betur. Nokkrir félagar hverfa á braut að sinni og þökkum við þeim kærlega fyrir þeirra framlag og ánægjuleg viðkynni á þessum vettvangi. Þeirra skörð fyllir öflugt og hæfileikaríkt fólk með fjölbreytta menntun og reynslu. Eins og áður erum við hópur sem vinnur sameiginlega að markmiðum okkar um betra samfélag og því er hlutverk allra innan hópsins jafn gilt og mikilvægt.

Markmið okkar er að auka hamingju og velferð íbúa Skútustaðahrepps ár frá ári og stuðla að því að hver einstaklingur fái notið sín í samfélaginu.
Nú kann einhver að spyrja hvað átt sé við með því, en í raun er svarið nokkuð einfalt. Hamingja okkar byggir á nokkrum stoðum s.s. heilsu, lífskjörum, menntun, í hvað við getum varið tíma okkar, umhverfi okkar, menningu, krafti samfélagsins og umgjörð. Stefnan verður því sett á að efla þessa þætti og aðgerðum forgangsraðað með það að leiðarljósi.
Samhliða er eins og áður sagði markmið að tryggja öruggan rekstur sveitarfélagsins til framtíðar með skynsemi í rekstri og lágmarks skuldsetningu.

Þá liggur fyrir að Þorsteinn Gunnarsson er okkar sveitarstjóraefni. Mikil ánægja hefur verið með störf Þorsteins og við vonumst til þess að krafta hans muni njóta hér eins lengi og kostur er.

Saman lítum við björtum augum til framtíðar sveitarfélagsins”.

Listann skipa í eftirfarandi röð:

1. Helgi Héðinsson
2. Elísabet Sigurðardóttir
3. Sigurður Böðvarsson
4. Dagbjört Bjarnadóttir
5. Friðrik Jakobsson
6. Alma Dröfn Benediktsdóttir
7. Arnþrúður Dagsdóttir
8. Anton Freyr Birgisson
9. Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir
10. Heiða Halldórsdóttir